Fimm burðarstólpar hættu í fyrra

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reiknað er með því að ákvarðanir verði teknar á næstu vikum af hálfu stjórnvalda vegna stöðunnar sem er uppi hjá loðdýrabændum. Þetta kom fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins.

Gunnar Bragi greindi frá því að minkabændur hafi leitað til ríkisstjórnarinnar um aðstoð við að komast út úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem greinin glímir við.

2-3 vikur til að taka ákvörðun

„Á næstu tveimur til þremur vikum á pelsun að hefjast, þ.e. þegar högnar og læður eru sett saman. Munu því minkabændur þurfa að taka ákvörðun um rekstur sinn áður en það hefst. Minkabændur hafa því margir hverjir tvær til þrjár vikur til að taka ákvörðun um það hvort þeir ætli að halda áfram rekstri sínum eða bregða búi. Það veltur því á aðgerðum næstu daga hvort þeir haldi áfram rekstrinum eða hætti honum, með öllu því tapi fyrir þekkingu og þjóðarbúið sem af því hlýst,“ sagði Gunnar Bragi, sem nefndi að minkarækt hefði skilað yfir tveimur milljörðum króna í útflutningstekjur þegar best lét.

Hann sagði greinina hafa átt í erfiðleikum vegna offramleiðslu á heimsvísu og þar af leiðandi lækkandi verðs. Verð skinna hafi verið undir framleiðslukostnaði síðustu ár.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert

600 til 650 milljónir á ári

Kristján Þór sagði að 17-18 bú væru starfandi í landinu, 150 þúsund skinn væru í framleiðslu og að veltan í greininni sé um 600 til 650 milljónir króna á ári.

„Það er alveg rétt sem hæstvirtur þingmaður nefndi að þegar best lét var þetta gríðarlega öflug grein og mikil velta, en það hefur kvarnast mjög ört úr þeim sem stunda þetta á síðustu árum. Til dæmis voru fimm burðarstólpar á síðasta ári sem hættu í loðdýrarækt vegna þess einfaldlega að þeir sáu ekki út úr augum fyrir vanda í rekstri. Þá standa eftir 17–18 bú sem verið er að ræða möguleika á hvort og þá hvernig væri hægt að mæta á einhvern tímabundinn hátt,“ sagði ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert