Hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar

Haukur Ingvarsson, rithöfundur og ljóðskáld, að lokinni afhendingu ásamt Þórdísi …
Haukur Ingvarsson, rithöfundur og ljóðskáld, að lokinni afhendingu ásamt Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, starfandi borgarstjóra, Þórarni Eldjárn, sem átti sæti í dómnefnd og Úlfhildi Dagsdóttur, formanni dómnefndar.

Haukur Ingvarsson hlaut í dag, 18. október, Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2018 fyrir ljóðahandritið Vistarverur. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, staðgengill borgarstjóra, veitti verðlaunin sem nema 800 þúsund krónum.

Haukur Ingvarsson er fæddur árið 1979. Hann lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum árið 2005 og hefur síðan fengist við ritstörf og dagskrárgerð í útvarpi. Hann leggur nú stund á doktorsnám í íslenskum bókmenntum og skrifar um viðtökur Williams Faulkner á Íslandi.

Fyrsta ljóðabók Hauks, Niðurfall og þættir af hinum dularfulla Manga, kom út 2005 og í kjölfarið komu fræðibókin Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og skáldsagan Nóvember 1976 (2011).

Alls bárust 60 óbirt ljóðahandrit undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Úlfhildur Dagsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarsson. 

Í niðurstöðu dómnefndar segir: „Í ljóðabók Hauks Ingólfssonar eru margar Vistarverur. Orðið sjálft, vistarvera, gefur til kynna tilfinningu fyrir stað og íbúa auk þess að vísa til tilvistarinnar sjálfrar og stöðu verunnar í henni. Allt þetta kemur saman í ljóðunum en þau einkennast af vangaveltum um tengsl hins efnilega og hins andlega, með áherslu á samfellu þessa.

Þannig verða byggingar og skip framlenging af sjálfi ljóðmælanda, minningar og draumar taka á sig áþreifanlega mynd í hinum ýmsu vistarverum og veruleikinn sjálfur er jafnframt bundinn upplifunum og tengslum við stað og stundir. Ljóðmælandi er á stundum líkt og eins konar draugur í eigin tilveru, hann veltir fyrir sér stöðu sinni í umhverfi sínu og sjálfsmynd og gluggar í stórar spurningar jafnt sem smáar.

Tóntegundin einkennist af hógværð í bland við íhygli og kímni. Heildarmyndin er falleg, margræð og fjölkunnug.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert