Hluti af minjasafni Vals í hættu

Vaða þurfti í stígvélum niðri í kjallara, en þar er …
Vaða þurfti í stígvélum niðri í kjallara, en þar er meðal annars hluti bikarasafns félagsins geymdur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við Valsmenn höfum mestar áhyggjur af því að þarna séu munir sem hafi skemmst, því miður,“ segir Lárus Blöndal Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vals.

Mikill vatnsleki varð í Valsheimilinu að Hlíðarenda í morgun og óttast er að tjón hafi orðið á minjasafni félagsins en hluti af því var geymt í kjallaranum, þar á meðal málverk, bækur og myndir úr starfi félagsins.

Reynt er að þurrka fjölda muna sem geymdir voru í …
Reynt er að þurrka fjölda muna sem geymdir voru í kjallaranum. mbl.is/Árni Sæberg

Að sögn Lárusar hjálpaðist fólk sem var á staðnum að við að bera munina út úr húsinu til að forða þeim frá tjóni. Vatnsleki varð einnig í tölvuherbergi Valsmanna. Hann kveðst ekki átta sig á tjóninu sem hefur orðið en nefnir að búið sé að taka rafmagnið af húsinu.

Aðspurður segir hann að skerðing verði á starfi Valsmanna í dag, enda er bæði vatns- og rafmagnslaust sem stendur. Býst hann við því að Valsheimilið verði meira og minna lokað í dag. Enginn leikur var fyrirhugaður þar í kvöld. 

Uppfært klukkan 9.58:

Valsheimilið verður lokað í dag, að minnsta kosti, að sögn Lárusar. 

Slökkviliðsmenn að störfum við að dæla vatni úr kjallaranum.
Slökkviliðsmenn að störfum við að dæla vatni úr kjallaranum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert