Hugnast ekki heræfingar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra út í mengun og mat á umhverfisáhrifum vegna heræfinga NATO hér á landi í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi.

Þórhildur Sunna vitnaði í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu þar sem talað var um að ekkert umhverfisrask yrði af heræfingunum.   

Hún spurði Katrínu Jakobsdóttur að því hvort stjórnvöld hafi tryggt að herskipin sem komu hingað til lands vegna æfinganna brenni ekki svartolíu eins og lög á Íslandi heimila og hvort gert hafi verið mat á umhverfisáhrifum vegna komu skipanna.

Einnig spurði hún hvers vegna framlög til varnarmála hafi nánast tvöfaldast frá árinu 2016, úr 1,1 milljarði króna í áætlaðan 2,1 milljarð í fjárlögum ársins 2019. Jafnframt spurið hún hvort líta mætti á heræfingarnar sem beina ögrun við kjarnorkuveldið Rússland.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/​Hari

Ekkert mat á umhverfisáhrifum

Katrín sagði að sér væri ekki kunnugt um að mat hafi farið fram á umhverfisáhrifum vegna heræfinganna og ekki heldur hvort slíkar heræfingar séu matsskyldar.

„Hins vegar er það svo að við þurfum að huga að svartolíumengun. Þar hefur Ísland verið í fararbroddi í alþjóðasamstarfi við að hvetja til banns við notkun svartolíu á höfum úti. Það á við um herskip jafnt sem önnur skip,“ sagði Katrín, sem nefndi einnig mikilvægi þess að rafvæða hafnir.

„Við sjáum það auðvitað, ekki bara frá herskipum heldur öðrum skipum, að mengunin af þeim skipum sem hér liggja í höfn er gríðarleg. Þar þarf að fara í stórt átak. Ég tel að það eigi við um öll skip.“

Öll aðildarríki aukið framlög 

Katrín sagði að öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins hafi aukið framlög sín til varnarmála vegna ríkrar kröfu þess efnis af hálfu NATO. Það hafi Ísland gert en upphæðin eða hlutfall hennar sé fjarri framlögum annarra þjóða

Hún nefndi einnig að skipulagning heræfingarinnar hafi hafist áður en hún tók við embætti forsætisráðherra. „Heræfingar eru ekki eitthvað sem mér hugnast,“ sagði hún en benti á að æfingarnar séu hluti af starfsemi NATO.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert