„Mistök sem ég tek á mig“

Hrólfur Jónsson gegndi starfi skrifstofustjóru skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá …
Hrólfur Jónsson gegndi starfi skrifstofustjóru skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hjá Reykajvíkurborg þar til í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrólfur Jónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, segir það á sinni ábyrgð að hafa ekki stigið inn þegar hluta af framúrkeyrslu, 120 milljónum króna, var eytt í framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík án þess að heimild var fyrir því.

Þetta kom meðal annars fram í máli Hrólfs í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hrólfur starfaði hjá borginni þar til í apríl á þessu ári. „Í þessari áætlun lá fyrir að það yrði óvissa eins og alltaf er þegar verið er að gera upp gömul hús. Þegar þessi áætlun er gerð liggur ekki fyrir hvernig eigi að nota húsið,“ sagði Hrólfur.

„Að hluta til er búið að fá þessa framúrkeyrslu samþykkta,“ sagði Hrólfur og nefndi í því samhengi að í verkstöðuskýrslu um áramótin 2017 til 2018 sést að 250 milljónum hafi verið eytt í verkefnið, sem var úthlutað 158 milljónum. „Það er alveg klárt mál að þarna var eytt 120 milljónum án þess að það voru heimildir til þess. Það eru auðvitað bara mistök sem ég tek á mig,“ sagði hann.  

Fram­kvæmd­irn­ar við braggann hafa kostað 415 millj­ón­ir en verk­efn­inu var …
Fram­kvæmd­irn­ar við braggann hafa kostað 415 millj­ón­ir en verk­efn­inu var út­hlutað 158 millj­ón­ir. mbl.is/Hari

Kjörnir fulltrúar vissu ekki af stöðunni fyrr en í ágúst

Hrólfur sat í fjármálahóp Reykjavíkurborgar, ásamt fjármálastjóra borgarinnar og fleirum. „Þessi framkvæmd fór ekki þar inn, það voru mistök. Það var enginn ásetningur í því og þessi úttekt innri endurskoðunar mun leiða það í ljós,“ sagði Hrólfur.

Þá sagði hann einnig að kjörnir fulltrúar hafi ekki vitað um rétta stöðu mála fyrr en í ágúst þegar fjármálahópur lagði hana fram fyrir borgarstjórn þegar heildarendurskoðun hafi verið gerð á fjárfestingaáætluninni.

„Þetta gerist ekki í einni ákvörðun. Þegar þú horfir á svona mál eftir á þá hefurðu allar upplýsingar. Þarna eru mörg atriði sem hafa áhrif á það að þetta fer framúr,“ sagði Hrólfur. „Það liggja fyrir allar fundargerðir frá verkfundum, það liggja fyrir allir reikningar, þannig að það verður hægt að rekja þetta mál algjörlega,“ sagði Hrólfur, sem ítrekaði einnig að það séu góðar og gildar ástæður fyrir því hvers vegna kostnaðurinn varð svona mikill og að óháð skoðun innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar muni leiða það í ljós.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert