Dæmd fyrir að reyna að bera út systur sína

Maðurinn og konan fóru án heimildar inn í íbúðina, þrátt …
Maðurinn og konan fóru án heimildar inn í íbúðina, þrátt fyrir að konan væri skráður eigandi íbúðarinnar. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann og konu í 30 daga fangelsi fyrir húsbrot, fyrir að hafa í júlí 2016 ruðst inn í húsnæði systur konunnar í heimildaleysi með því að kalla eftir aðstoð Neyðarþjónustunnar sem boraði upp lás á dyrum fasteignarinnar.

Konan bjó í íbúðinni ásamt eig­in­manni og börn­um og höfðu þau leigt af systur konunnar, sem hafði ákveðið að láta bera þau út úr íbúðinni.

Í dómnum kemur fram að lögreglu barst tilkynning um óvelkominn mann við íbúðina. Lögregla fór á vettvang og hitti þar fyrir hóp fólks sem samanstóð af ákærðu og fjölskyldumeðlimum þeirra, sem sögðust vera að flytja inn í húsið sitt og framvísuðu þau vottorði sem sýndi að konan væri skráður eigandi hússins. Stuttu seinna kom systir ákærðu og eiginmaður í íbúðina og varð þá mikill æsingur. Lögregla reyndi að stilla til friðar en gekk illa.

Hjónin höfðu leigt af systur konunnar í fjögur ár og búið þar ásamt börnum sínum en ekki gert skriflegan leigusamning. Systirin sem átti íbúðina bjó erlendis en lét systur sína vita í febrúar 2016 að hún væri að flytja heim en nákvæm tímasetning lá ekki fyrir.

Ákærðu héldu því fram fyrir dómi að þeim hefði verið heimilt að fara inn í eignina og því hafi ekki verið um refsiverðan verknað að ræða. Í dómnum kemur hins vegar fram að ákærðu fóru án heimildar inn í íbúðina.

Ákærðu eru einnig dæmd til að greiða hjónunum 100.000 krónur hvoru í miskabætur, ásamt vöxtum, ásamt 600.000 krónur sameiginlega í málskostnað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert