„Sunnudagur lítur betur út“

Kort/Veðurstofa Íslands

Alldjúp lægð er nú langt suðvestur af landinu en skilin frá henni ganga yfir í dag. Næsta lægð er væntanleg aðfaranótt laugardags og útlit fyrir storm og mikla rigningu. En huggun harmi gegn þá lítur sunnudagur betur út. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands þennan morguninn.

„Alldjúp lægð er nú langt suðvestur af landinu en skilin frá henni ganga yfir í dag. Það er því allhvasst af suðaustri og vætusamt víðast hvar á landinu, en þurrt að mestu norðaustan til fram yfir hádegi. Það bætir heldur í úrkomuna sunnan og síðar suðaustan til þegar líður á daginn en þegar skilin ganga yfir undir kvöld snýst vindur í suðvestanátt með að því er virðist nokkuð öflugum skúradembum á vestanverðu landinu en mildu veðri fyrir austan. 

Næsta lægð er væntanleg aðfaranótt laugardags, talsverður hitamunur er á skilum hlýja og kalda loftmassans suður af landinu og því útlit fyrir nokkuð djúpa lægð með stormi á landi og mikilli rigningu. Sunnudagur lítur betur út, en þó er áfram nokkuð vætusamt sunnan og vestan til,“ segir veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Suðaustan 10-18 m/s og rigning en mun hægari vindur norðaustan til á landinu fram að hádegi og yfirleitt þurrt. Sunnan 8-15 eftir hádegi og talsverð rigning sunnan- og síðar suðaustanlands og dálítil væta norðanlands. 

Suðvestan 8-15 m/s og skúrir í kvöld og á morgun en rofar aftur til norðaustan og austanlands. Vaxandi suðaustanátt með rigningu við suðurströndina annað kvöld. Hiti víða 5 til 10 stig yfir daginn.

Á föstudag:
Suðvestan 8-15 m/s og skúrir, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Hiti 3 til 8 stig. Snýst í allhvassa en skammvina suðaustanátt um kvöldið og fer að rigna sunnanlands. 

Á laugardag:
Suðvestan hvassviðri eða stormur með rigningu en þurrt að kalla um landið norðaustanvert. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast á Austurlandi. 

Á sunnudag:
Vestlæg átt og skúrir eða él, en léttskýjað austan til á landinu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á mánudag:
Áframhaldandi vestlæg átt. Rigning með með suðurströndinni, en yfirleitt þurrt annars staðar á landinu og bjart norðaustan til. Kólnar smám saman, einkum norðan til. 

Á þriðjudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt og þurrt veður, en stöku él nyrst á landinu. Hiti kringum frostmark, en 3 til 5 stig með ströndinni að deginum. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með rigningu og heldur hlýnandi veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert