„Ég myndi aldrei sætta mig við þetta“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, starfandi borgarstjóri og formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, starfandi borgarstjóri og formaður borgarráðs Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, starfandi borgarstjóri og formaður borgarráðs, segir það algjörlega óbjóðandi að framkvæmdirnar við braggann í Nauthólsvík hafi ekki komið upp á yfirborðið í pólitískri umræðu eða samþykktarferli eins og venja er með mál af þessu tagi.

„Oft fara verkefni í aðra átt en þau upphaflega stefna, en þá er tekin ákvörðun hvort eigi að halda áfram eða gera eitthvað annað og þá er hægt að bregðast við það,“ segir Þórdís Lóa í samtali við mbl.is og nefnir hún endurgerð Sundhallarinnar máli sínu til stuðnings. „Þá kom í ljós að kostnaðaráætlanir voru að breytast og þá er bæði ákveðið að bæta í en líka ákveðið að breyta hönnun og gera hana ódýrari, þá ertu komin með eðlilega ákvarðanatöku.“

Allt bendir því til þess að ákvarðanataka varðandi framkvæmdir við braggann hafi ekki verið með eðlilegum hætti. „En ég vil ekki vera neinn dómari fyrr en ég sé niðurstöðuna frá innri endurskoðun,“ segir Þórdís Lóa, sem er vissulega ný í borgarpólitíkinni en hefur þekkingu á fjármálum og rekstri að eigin sögn. „Og ég veit að ég myndi aldrei sætta mig við þetta.“  

Formaður borgarráðs segir að allt bendi til þess að ákvarðanataka …
Formaður borgarráðs segir að allt bendi til þess að ákvarðanataka varðandi framkvæmdir við braggann hafi ekki verið með eðlilegum hætti. mbl.is/Árni Sæberg

Fráleitt að kalla SEA dótakassa

Skrifstofa eigna og at­vinnuþró­un­ar Reykja­vík­ur­borg­ar (SEA) hefur umsjón með framkvæmdum við braggann og hefur Hrólfur Jónsson, sem gegndi starfi skrifstofustjóra SEA fram í apríl, sagt að það hafi verið á sinni ábyrgð að hafa ekki stigið inn þegar hluta af framúr­keyrslu, 120 millj­ón­um króna, var eytt í fram­kvæmd­ir við bragg­ann án þess að heim­ild var fyr­ir því.

Þórdís Lóa segir að hún muni ekki leggja dóm á hver beri ábyrgð á framúrkeyrslunni, að minnsta kosti ekki fyrr en niðurstaða rannsóknar innri endurskoðunar liggi fyrir. Reynsla hennar af samskiptum við SEA hingað til hafi verið góð.

„Þetta er afbragðsfólk sem vinnur vinnuna sína vel og hratt og örugglega og er umhugað um að gera vel og keyra áfram þróun í borginni. En það breytir því ekki að kerfin eru ekki nægilega góð og við þurfum að breyta þeim.“

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur kallað skrifstofuna dótakassa og segir hana frá upphafi verið hugmynd og hugarfóstur borgarstjóra fyrir útvalin verkefni, en skrifstofan var stofnuð árið 2012 þegar til­lög­ur um ein­föld­un á stjórn­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar voru samþykkt­ar í borg­ar­stjórn.

Þórdís Lóa segir málflutning Vigdísar fráleitan. „Þegar maður er að koma inn sem stjórnandi er maður að setja alls kyns verkefni í gang. Að kalla það einhvern dótakassa finnst mér fráleitt.“  

Áttu ekki von á máli eins og bragganum

Framúrkeyrsla kostnaðar við framkvæmdir á bragganum eru hluti af risastærra verkefni borgarstjórnar að mati Þórdísar Lóu, það er að vinna að betri fjármálastjórn í borginni.

„Við viljum sjá miklu betri fjármálastjórn þegar kemur að verkferlum, ábyrgð, umboði og innkaupum. Það er eitt af því sem við í Viðreisn ræddum mjög opið um í kosningabaráttunni. Við áttum von á því í risastóru fyrirtæki eins og borginni að það væru einhver verkefni sem við þyrftum að ganga í en við áttum kannski ekki alveg von á máli eins og bragganum.“

Vinna við að bæta fjármálastjórn í borginni þegar hafnar að sögn Þórdísar Lóu og nefnir hún úttekt innri endurskoðunar vegna um­fram­kostnaðar við end­ur­bæt­ur á íbúðum Fé­lags­bú­staða við Írabakka í Reykja­vík sem dæmi. Þá sé von á niðurstöðum innri endurskoðunar vegna út­tektar á inn­kaup­um og útboðum á nokkr­um verk­efn­um og er Hlemm­ur Mat­höll meðal þeirra. „Því ferli er að ljúka og við förum væntanlega að fá svör.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert