Glæpasögurnar þóttu ekki bókmenntir

Arnaldur Indriðason rithöfundur.
Arnaldur Indriðason rithöfundur. mbl.is/Árni Sæberg

Tvær vikur eru nú í að ný bók spennusagnahöfundarins Arnaldar Indriðasonar komi í verslanir og eftirvænting aðdáenda hans fer að líkindum vaxandi. Nýja bókin nefnist Stúlkan hjá brúnni og í henni segir af ungri konu í neyslu og fjölskylda hennar sem biður lögreglumanninn Konráð að leita að henni. Konráð er hins vegar mest með hugann við löngu liðna atburði og skyndilega fangar lítil stúlka sem drukknaði í Reykjavíkurtjörn athygli hans. Nístandi saga um brostnar vonir og börn sem eiga sér hvergi skjól, eins og bókinni er lýst í kynningu.

Vinsældir Arnaldar eru flestum kunnar. Stúlkan hjá brúnni er 22. bók hans á jafnmörgum árum en hin síðari ár hefur hann nær óslitið setið á toppi metsölulista fyrir jólin. Nú ber svo við að fyrir þessi jól mun hann rjúfa 500 þúsund eintaka múrinn í sölu hér á landi. Af því tilefni mun útgefandi hans lauma gullmiða í 500 þúsundasta einstakið en sá sem það kaupir fær í kaupauka vegleg verðlaun.

En það er ekki bara hér á landi sem Arnaldur nýtur vinsælda. Á heimsvísu hafa selst um 14 milljón eintök og enginn íslenskur rithöfundur hefur átt viðlíka velgengni að fagna. Nýlega kom til dæmis Synir duftsins, fyrsta bók Arnaldar, út í fyrsta skipti í Frakklandi og skaust hún rakleiðis á topp tíu listann yfir mest seldu bækurnar þar í landi.

Horfir enn til fortíðar

En hvað segir Arnaldur sjálfur? Morgunblaðið lagði fyrir hann nokkrar spurningar í tilefni af útgáfu nýju bókarinnar. Hann var fyrst spurður hvort hann sæi fyrir sér að halda áfram að gefa út nýja bók á hverju ári eða hvort hann hafi íhugað að skipta um takt eða hægja á.

„Ég sé nú ekki neitt stopp á því. Ekki í bili að minnsta kosti. Ég er að byrja þessa nýju bókaröð um lögreglumanninn fyrrverandi, Konráð, hún gerist í Reykjavík eftirstríðsáranna og fram á okkar daga og ég hef í hyggju að skrifa um hann nokkrar bækur. Hvað svo tekur við skal ósagt látið. Á meðan mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa sem rithöfundur og fæ hugmyndir til þess að vinna úr held ég áfram,“ segir Arnaldur.

Nýjasta bók Arnaldar ber heitið Stúlkan hjá brúnni.
Nýjasta bók Arnaldar ber heitið Stúlkan hjá brúnni.

Væntanleg bók ber titilinn Stúlkan hjá brúnni og miðað við kynningartexta leitarðu enn á ný aftur í fortíðina. Finnst þér þú vera búinn að finna þér stað með því að skrifa sögur sem gerast fyrr á dögum?

„Ég hef alltaf haft gaman að því að ferðast í tíma í verkum mínum bæði fram og aftur og það verður ekkert lát á því í bókunum um Konráð. Hann kom fyrst fram í stríðsárabókinni Skuggasundi og síðan í Myrkrið veit og núna er meiningin að rekja sögu hans áfram í fortíð og nútíð. Ég bý að menntun í sagnfræði og þar er sjálfsagt að finna áhugann á því liðna. Mér finnst ekki síst gaman að skoða hver við erum á ólíkum tímum og hvernig tíminn hefur áhrif á líf okkar.“

Þóttu ekki vera bókmenntir

Arnaldur viðurkennir fúslega að 500 þúsund eintaka sala hér á landi og 14 milljónir um heim allan hafi ekki beint blasað við þegar hann hóf feril sinn. Enda á brattann að sækja fyrir glæpasöguna í upphafi.

„Fyrsta bókin, Synir duftsins, held ég að hafi farið í minna en 700 eintökum svo maður átti ekki von á neinu góðu í sölu. Enda voru fyrstu bækurnar mínar skrifaðar í allt öðru andrúmslofti en nú er og við sem riðum á vaðið með glæpasögur hér á landi urðum að brjóta ófáa múra. Það var ekki litið á slík skrif af neinni alvöru og alls ekki sem bókmenntir og er varla enn í sumum kimum. Sem betur fer hefur það lagast á öllum þessum árum sem liðin eru síðan og leiðin legið upp á við. Í dag er þetta blómstrandi bókmenntagrein og allt gamaldags andóf gegn henni að mestu horfið. Ég hef alltaf verið mjög þakklátur lesendum mínum fyrir þann áhuga sem þeir hafa sýnt bókunum í gegnum árin og hann hefur styrkt mig í trúnni á möguleikana sem þetta form bókmennta býður upp á – og ekki síst hvatt mig til þess að halda áfram.“

Þú hefur valið að halda þig til hlés að mestu. Þú gefur ekki mörg færi á viðtölum og sinnir lítið upplestrum, í það minnsta hér á landi. Af hverju er það?

„Hvorki hér né erlendis nú orðið. Það er þreyta mest, trúi ég. Ég hef dregið mikið úr bókaferðalögum undanfarin ár og finnst of mikið að fara í viðtöl í hvert sinn sem kemur út bók eftir mig. Mér leiðist að tala um sjálfan mig. Ég tók reyndar fullan þátt í slagnum um athyglina á sínum tíma en mér þótti það ekki spennandi og svo kemur að því að maður fær nóg og þá er gott að geta dregið sig í hlé.“

Spilar golf og fótbolta

Manni virðist sem þú sért með fastmótað vinnulag við skrif þín. Hvað gerirðu utan vinnunnar? Áttu einhver áhugamál? Eitthvað sem þú hefur tekið upp á síðustu árum?

„Ég spila fótbolta og hef gert frá því að ég man eftir mér, fylgist með Arsenal í enska boltanum og spila golf vestur á Nesi sem er einhver fallegasti golfvöllur landsins og með frábærum klúbbfélögum. Ég les á hverjum degi og er í þessu að ljúka bók um Miklahvell. Svo höfum við alltaf ferðast mikið um landið sem er eiginlega orðið ófært þessi misserin út af túrismanum. Helst að maður fari til Raufarhafnar og á Snæfjallaströnd og slíka dásemdarstaði.“

Erlendur enn úti í kuldanum

Aðdáendur þínir hafa ekkert heyrt af afdrifum lögreglumannsins Erlendar hin síðustu ár. Gefið var í skyn að hann væri dáinn en það var þó hæfilega óljóst. Mega lesendur eiga von á því að hann snúi einhvern tímann aftur í bókum þínum?

„Erlendur liggur í kuldanum austur á fjörðum og gerir enn um sinn. Ég veit ekki hvort hann er dáinn. Hæfilega óljóst, er líklega rétta lýsingin á tilveru eða tilveruleysi hans. Ég segi stundum í hótfyndni að það taki tímann sinn að deyja úr kulda og á meðan Erlendur er í því ástandi get ég verið að dunda mér við annað.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert