Japanar sjá tækifæri á norðurskautinu

Taro Kono á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu.
Taro Kono á Arctic Circle-ráðstefnunni í Hörpu. Ljósmynd/Arctic Circle

Taro Kono, utanríkisráðherra Japans, segir japönsk stjórnvöld greina tækifæri á norðurskautinu vegna opnunar siglingaleiða. Um leið feli loftslagsbreytingar í sér mikla áskorun. Kono var meðal ræðumanna á Hringborði norðursins í Hörpu í dag. Tók hann þar meðal annars þátt í umræðum með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Kono sagði stefnu Japana í norðurslóðamálum þríþætta:

Í fyrsta lagi þurfi að greina betur þær breytingar sem eru að verða á lífríki norðurskautsins. Efla þurfi vísindastarf á þessu sviði.

Í öðru lagi beri að nýta þau efnahagslegu tækifæri sem bjóðast á norðurskautinu. Um leið þurfi að virða lífríkið og líf frumbyggja á svæðinu.

Í þriðja lagi þurfi að tryggja að lög og regla sé við lýði og alþjóðleg samvinna efld á friðsaman og skipulagðan hátt.

Kono sagði Japana hafa lagt sitt af mörkum til vísindarannsókna á norðurskautinu frá sjötta áratug síðustu aldar. Mikilvægt sé að safna frekari gögnum um þennan heimshluta. Með þetta í huga íhugi japönsk stjórnvöld að smíða nýjan ísbrjót fyrir slíkar rannsóknir, sem yrði opinn hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.

Kono sagði að landfræðilega sé eyjan Hokkaido í Japan hlið frá Asíu til norðurleiðarinnar yfir norðurskautið. Japönsk stjórnvöld greini tækifæri á þessari siglingaleið. Japönsk stjórnvöld eigi nú í víðtækri samvinnu við Rússa um uppbyggingu orkuiðnaðar á norðurskautssvæðum. Meðal annars hafi japanska olíu- og málmvinnslufyrirtækið JOGMEC og rússneska gasfyrirtækið NOVATEK skrifað undir viljayfirlýsingu í þessu efni.

Á hinn bóginn feli uppbygging á norðurskautssvæðinu í sér áskoranir, ekki síst í umhverfismálum. Auknar líkur verði á umhverfisslysum. Kono heimsótti Grænland í fyrravor. Hann sagði skýr merki um loftslagsbreytingar í heimshlutanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert