„Tjónið að mínu mati augljóst“

Lyf og heilsa var dæmt til að greiða Apó­teki Vest­ur­lands …
Lyf og heilsa var dæmt til að greiða Apó­teki Vest­ur­lands fjór­ar og hálfa millj­ón í bæt­ur vegna sam­keppn­is­brota. mbl.is/Golli

„Þetta mál er búið að taka ansi langan tíma,“ seg­ir Ólaf­ur Ad­olfs­son, lyfja­sali og eig­andi Apó­teks Vest­ur­lands. Hæstirétt­ur hef­ur dæmt Lyf og heilsu til að greiða Apó­teki Vest­ur­lands fjór­ar og hálfa millj­ón í bæt­ur vegna sam­keppn­is­brota.

Ólafur segist vera glaður að málinu sé lokið og að hann sé að loka ellefu ára kafla en hann gerði fyrstu athugasemdina sumarið 2007. 

Skaðabóta­málið má rekja til úr­sk­urðar áfrýj­un­ar­nefnd­ar sam­keppn­is­mála frá ár­inu 2010 þar sem staðfest var að Lyf og heilsa hefði á til­teknu tíma­bili mis­notað markaðsráðandi stöðu sína í aðgerðum sem beind­ust gegn Apó­teki Vest­ur­lands. Meðal ann­ars með því að hindra inn­komu fyr­ir­tæk­is­ins á lyfja­sölu­markaðinn á Akra­nesi með út­gáfu vild­ar­korta og bar­áttu­afslátta. Hæstirétt­ur staðfesti úr­sk­urðinn árið 2012.

Apó­tek Vest­ur­lands höfðaði í kjöl­farið skaðabóta­mál og krafðist rúmra 18 millj­óna króna í bæt­ur vegna tjóns­ins sem það taldi sig hafa orðið fyr­ir vegna aðgerðanna. Í mál­inu lá fyr­ir und­ir­mats­gerð með þeirri niður­stöðu að Apó­tek Vest­ur­lands hefði orðið fyr­ir tjóni sem nam 18.506.078 kr, en í yf­ir­mats­gerð var ályktað að fyr­ir­tækið hefði ekki orðið fyr­ir beinu tapi vegna hinna ólög­mætu sam­keppn­is­hindr­ana. Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur sýknaði Lyf og heilsu af skaðabóta­kröf­unni í janú­ar á síðasta ári.

Ólafur heldur því fram að upprunalega kröfugerð Apóteks Vesturlands, um 18 milljónir króna í bætur, hafi verið réttmæt. „Það er hins vegar búið að fella dóma í málinu og niðurstaðan er þessi. Það segir að ég hafi ekki náð að sannfæra dómara um að tjónið væri eins og við upplifðum það,“ segir Ólafur og bætir því við að hann sé ánægður með að Hæstiréttur hafi snúið sýknu héraðsdóms við.

Spurður hvort þetta sé dæmi um það þegar stórt og kraft­mikið fyr­ir­tæki reyn­ir að traðka á minna fyr­ir­tæki seg­ir Ólaf­ur Lyf og heilsa sé nú ekki að leika þennan leik í fyrsta sinn og málið snúist nú frekar um skort á heilbrigðu viðskiptasiðferði fyrirsvarsmanna fyrirtækja fremur en stærð þeirra. 

„Það er umhugsunarefni fyrir mig og aðra sem kunna að lenda í sambærilegum aðstæðum hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu, eftir að sýnt hefur verið fram á alvarleg og gróf samkeppnislagabrot sem staðfest hafa verið á öllum dómstigum og álögðum sektum fyrir 100 milljónir, að það hafi enginn skaði orðið hjá þeim aðila sem fyrir brotinu verður.  Það hvetur mann allavega ekki til að fara fram á bætur þó tjónið sé að mínu mati augljóst”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert