„Ég bið ekki um mikið“

Kristín Jónsdóttir komst að því þrítug að hún hafði verið rangfeðruð, þótt faðernið hefði verið staðfest með blóðrannsókn fyrir dómi á sínum tíma. Hún hóf leit að réttum föður og hefur nú fundið hann eftir 18 ára leit. Þjóðskrá skráir hann þó ekki sem föður hennar jafnvel þótt DNA-próf liggi fyrir. 

Þjóðskrá segist þó ekki geta skráð föðurinn, John David Lambert, sem föður Kristínar þar sem móðir hennar er látin. Kristín hefur verið ófeðruð í 18 ár, allt frá því í ljós kom að sá sem hún hafði fram að því talið föður sinn var henni alls óskyldur. 

Henni er nú tjáð að hún verði að leita til dómstóla og höfða faðernismál til að fá réttan föður viðurkenndan. Það getur hún hins vegar ekki gert þar sem hún er ekki búsett hér á landi heldur í Kanada. Skilyrði sem sett eru í barnalögum fyrir því að hún fái að höfða faðernismál hér á landi er að hún flytji lögheimili sitt hingað til lands. Hún sem sagt þarf að fara í dómsmál – en má þó ekki fara í dómsmál nema hún flytjist milli heimsálfa.

Hún og faðir hennar hafa talað saman í síma á hverjum degi frá því í febrúar þegar hún fann hann loksins. „Við þurfum að bæta upp þau 48 ár sem við misstum af saman. En fyrsta hindrunin er að klára þetta mál með faðernið. Það skiptir miklu máli fyrir hann að fá það viðurkennt að ég sé dóttir hans og það er mikilvægt fyrir mig að vera rétt feðruð í þjóðskrá. Ég er algjörlega íslensk lagalega séð og með íslenskt vegabréf. Ég ætti bara að þurfa að framvísa DNA-prófinu og fá þetta leiðrétt. Ég skil ekki að neinum á Íslandi geti fundist eðlilegt að neita mér um að breyta skráningunni. Ég veit ekki hvað við pabbi höfum langan tíma saman. Mér finnst ég hafa þurft að líða nóg fyrir þetta nú þegar og vil bara fá þetta leiðrétt. Ég bið ekki um mikið,“ segir Kristín. 

Sagan er rakin ítarlega í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert