Í varðhaldi vegna vinnumansals

Maðurinn er talinn hafa flutt tugi manna til Íslands yfir …
Maðurinn er talinn hafa flutt tugi manna til Íslands yfir um tveggja ára skeið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendur maður hefur verið í gæsluvarðhaldi í hálfan mánuð vegna gruns um að hann hafi stundað vinnumansal, að því er fram kom í fréttum RÚV í kvöld. Er maðurinn, sem er pakistanskur, talinn hafa flutt tugi manna til Íslands yfir um tveggja ára skeið og suma þeirra á fölsuðum skilríkjum.

RÚV segir manninn hafa verið handtekinn ásamt tveimur samlöndum sínum við komuna á Keflavíkurflugvöll fyrir hálfum mánuði.

Í kjölfarið hafi verið gerð húsleit í íbúð mannsins við Snorrabraut og hópur fólks handtekinn, hald lagt á vegabréf og fleira. Þá er maðurinn sagður vera grunaður um peningaþvætti, skjalafals og fleiri brot.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við mbl.is málið vera til rannsóknar, en vill ekki staðfesta það sem fram kemur í frétt RÚV. Málið sé hins vegar umfangsmikið og vegna eðlis þess séu ekki veittar um það upplýsingar á þessari stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert