Laus úr haldi mannræningjanna

Mohammed Dewji er eini millj­arðarmær­ing­ur Tans­an­íu og sá yngsti í …
Mohammed Dewji er eini millj­arðarmær­ing­ur Tans­an­íu og sá yngsti í Afr­íku. Hon­um var rænt af vopnuðum mönn­um en er nú laus úr haldi þeirra. AFP

Tansaníski milljarðamæringurinn Mohammed Dewji er laus úr haldi mannræningja en honum var rænt fyrir utan líkamsræktarstöð lúxushótels fyrr í mánuðinum. „Ég þakka Allah fyrir að komist heim heill á húfi,“ sagði Dewji á blaðamannafundi á hótelinu þar sem honum var rænt.

Dewji er fram­kvæmda­stjóri MeTL, sem áður var heild­sala í eigu fjöl­skyldu hans. Fyr­ir­tækið er með starf­semi í um 12 ríkj­um og á hlut í land­búnaði, mat­væla­fram­leiðslu, sam­göng­um og flutn­ing­um og trygg­ingaiðnaðinum.

For­bes-tíma­ritið met­ur hann á 1,5 millj­arða doll­ara  og er hann í 17. sæti á lista tíma­rits­ins yfir efnuðust menn Afr­íku. Dewji sat á þingi á ár­un­um 2005-2015 og var árið 2013 fyrsti íbúi Tans­an­íu til að skreyta forsíðu For­bes. Tveim­ur árum síðar til­nefndi tíma­ritið hann afr­íska ein­stak­ling árs­ins.

„Ég þakka samlöndum mínum og öðrum fyrir bænir þeirra,“ sagði Dewji en hann losnaði úr haldi mannræningjanna eftir að þeir gáfust upp og stungu af þannig að Dewji náði að hringja í föður sinn og gera honum viðvart.

Lögregla í Tansaníu sagði í gær að þeir hefðu borið kennsl á bílstjóra bifreiðarinnar sem var notuð við mannránið og að rannsókn málsins miðaði vel áfram. „Dewji sagði okkur að ræningjarnir hafi viljað lausnargjald, en þeir hafi verið mjög hræddir þrátt fyrir að vera vopnaðir. Dewji spurði þá ítrekað hvað þeir vildu en þeir gáfu aldrei upp neina fjárhæð,“ sagði lögreglustjórinn Simon Sirro á blaðamannafundinum.

Þá gaf Dewji mannræningjunum einnig upp upplýsingar um hvernig þeir næðu á foreldra hans en mannræningjarnir þorðu ekki að hafa samband við þau þar sem þeir óttuðust að það kæmi upp um þá. „Við vitum núna hvernig þeir starfa og hvar þeir lögðu á ráðin um mannránið,“ sagði lögreglustjórinn en veitti ekki frekari upplýsingar. Þá töluðu mannræningjarnir suður-afrískt tungumál sem staðfestir grun yfirvalda um að ræningjarnir hafi komið til Tansaníu erlendis frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert