Mikilvægt að fylgjast með veðurspám

Mynd/Skjáskot af vedur.is

Með morgninum er búist við vaxandi suðvestlægri átt og upp úr hádegi má búast við hvassviðri eða stormi víða um landi með skúrum, en léttir til um landið norðvestanvert. Í kvöld bætir enn í vindinn og útlit er fyrir að hviður geti farið upp í um 40 metra á sekúndu á norðan- og norðaustanverðu landinu. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Þar er jafnframt tekið fram að í suðvestanáttinni séu ákveðnir staðir sem finni meira fyrir veðurhæðinni en aðrir, til að mynda Skagafjörður, Eyjafjörður og jafnvel í kringum Smjörfjöll á austanverðu landinu. 

Fram kemur að spár hafi breyst mikið í gær og ekki sé hægt að útiloka að sama verði upp á teningnum í dag. Fólk er því beðið um að fylgjast sérstaklega vel með veðurspám fyrir kvöldið og nóttina, einkum á norðanverðu landinu.

Á morgun fer síðan að draga úr vindi og kólna. Úrkoma verður líklega skúrir eða él, en þurrt að mestu austast.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á sunnudag:
Suðvestan 13-23 m/s í fyrstu, hvassast norðan til. Dregur úr vindi þegar líður á daginn, suðvestlæg átt 8-13 m/s undir kvöld. Skúrir eða él, en úrkomulítið A-ast. Hiti 1 til 6 stig. 

Á mánudag:
Vestan 5-13 m/s og rigning með köflum, en þurrt að mestu á N- og A-landi. Hiti 1 til 8 stig, mildast syðst. 

Á þriðjudag:
Breytileg átt 5-13 m/s og þurrt í fyrstu, en rigning sunnanlands eftir hádegi og N-til um kvöldið. Hlýnandi veður, hiti 2 til 10 stig. 

Á miðvikudag:
Gengur í stífa suðvestanátt með vætu V-lands, en þurrt um landið A-vert. Kólnandi veður. 

Á fimmtudag og föstudag:
Útlit fyrir norðlæga átt með éljum fyrir norðan, en bjart með köflum sunnan til. Hiti víða nálægt frostmarki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert