Mótmæltu með blómum og skiltum

Frá æfingu NATO á Suðurnesjum fyrr í vikunni. Æfingar fóru …
Frá æfingu NATO á Suðurnesjum fyrr í vikunni. Æfingar fóru fram í Þjórsárdal í dag og í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Hernaðarandstæðingar stóðu fyrir mótmælum og sögugöngu í Þjórsárdal í dag, en þar fór fram seinni dagur heræfingar bandarískra hermanna. Tilgangur æfingarinnar er að undirbúa hermenn til veru í slæmu veðri og kanna þolmörk þeirra í göngu með þungan búnað og stóð til að 400 hermenn tækju þátt í æfingunni í dag.

Samtök hernaðarandstæðinga auglýstu í vikunni að farið yrði í sögu- og menningarferð um Þjórsárdal í dag þar sem náttúra og söguminjar yrðu skoðaðar. Guttormur Þorsteinsson, formaður samtakanna, sagði í samtali við mbl.is að um 30 manna hópur hefði mætt á svæðið upp úr hádegi.

Hann segir það hafa verið furðulegt að sjá bandaríska hermenn vopnaða í fullum skrúða. „Þegar við komum hérna þá voru þeir í þremur hópum með tjöld sem þeir voru að pakka saman og svo er búið að hóa þá saman í nokkra hópa í hópefli,“ segir Guttormur. „Við vorum með smá göngu, veifuðum skiltum og gáfum þeim blóm og bæklinga með skoðun okkar á þeirra veru hérna. Við kipptum því með af því að við vissum að þeir yrðu hérna,“ segir Guttormur. „Sumir voru kurteisir en aðrir vildu ekki tala við okkur.“

Æfingarnar er hluti af heræfingu NATO, Tri­dent Junct­ure, sem haldin verður á Atlantshafi og í Noregi. Herskipin sem hafa legið við Reykjavíkurhöfn frá því á fimmtudag halda til Noregs á morgun.

Herþyrlur tóku þátt í æfingunni í vikunni.
Herþyrlur tóku þátt í æfingunni í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert