Taka athugasemdir ASÍ alvarlega

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar. mbl.is/Hari

„Við tökum athugasemdir ASÍ alvarlega. Ég mun tryggja það að við munum ekki taka að okkur verkefni sem iðnaðarmenn eða aðrir hafa áhuga á,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar um gagnrýni Alþýðusambands Íslands á fyrirkomulag sem gilt hefur um vinnu fanga utan fangelsa.

Þar kemur fram að fangar fái 400 krónur á tímann fyrir vinnu á almennum vinnumarkaði, m.a. störf iðnaðarmanna. Fangelsismálastofnun mun funda með forstöðumönnum fangelsa í komandi viku og fara yfir málin, að sögn Páls. 

„Við munum fara yfir stöðuna og passa að við munum taka ekki að okkur verkefni sem aðrir vilja vinna og hugsanlega bjóða upp á minni vinnu utan og innan fangelsa landsins. Ef það verður niðurstaðan að þetta fyrirkomulag eins og það er núna sé ólöglegt, þá verðum við að stöðva vinnu innan og utan fangelsa þar til búið er að laga það fyrirkomulag, en það mun kosta verulega mikið fjármagn sem ekki er til staðar hjá Fangelsismálastofnun,“ segir Páll.

Páll segir að vinna fanga sé eðlisólík annarri vinnu og af henni hljótist engin arðsemi fyrir Fangelsismálastofnun. „Peningalega hefur Fangelsismálastofnun ekki hag af því að fangar vinni. Það er fjöldi verkstjóra að störfum í fangelsum landsins sem hefur það verkefni eitt að fylgjast með föngum vinna og aðstoða þá við að læra að vinna. Ef vinna yrði lögð af [í fangelsum] þá þyrftum við ekki þessa starfsmenn. Það eru veruleg útgjöld fólgin í því að halda úti vinnu fyrir fanga en það er mjög mikivægur þáttur í betrun.“

Vinna almennt vinnu sem aðrir vilja ekki

Þá segir Páll að vinna fanga standist enga samkeppni við hinn almenna vinnumarkað.„Almennt hefur vinnan sem við höfum tekið að okkur verið vinna sem aðrir hafa ekki viljað vinna og þannig er vinnan líka að mestu leyti innan fangelsana. Við höfum verið kölluð til þegar uppskera er að eyðileggjast t.a.m. á Suðurlandi, þegar næturfrost er og þess háttar vinna þar sem erfitt er að kalla á stóran hóp manna með litlum fyrirvara,“ segir Páll. 

„Það sem við getum gert er að við getum dregið verulega úr vinnu fyrir fanga eða nánast hætt að bjóða upp á vinnu fyrir fanga, bæði utan og innan fangelsa, en ég held að það gæti haft alvarlegar afleiðingar, vegna þess að iðjuleysi er jú ömurlegt og þetta er stór partur af því að undirbúa einstaklinga fyrir þátttöku í samfélaginu, að læra að vinna, læra að hafa eitthvað fyrir stafni og að læra að hafa einhverjar skyldur,“ segir Páll að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert