Yfir 600 á biðlista inn á Vog

Arnþór segir að hægt væri að vinna á vandanum með …
Arnþór segir að hægt væri að vinna á vandanum með litlum tilkostnaði. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

„Það er með algjörum ólíkindum að heilbrigðisyfirvöld skuli ekki bregðast við þessum vanda á einhvern hátt. Starfsfólkið á Vogi vinnur allan sólarhringinn á vöktum, alla daga ársins og ekkert má útaf bregða í rekstrinum, hvorki veikindi né aðrar óvæntar uppákomur,“ segir Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, í nýjum pistli á vef SÁÁ, en fjöldi einstaklinga á biðlista inn á Vog er nú kominn yfir 600.

Arnþór segir að hægt væri að vinna á biðlistanum og hamla þannig gegn stöðugt versnandi ástandi með litlum tilkostnaði.

„Langvarandi niðurskurður í þjónustu fyrir fólk með fíknsjúkdóm, niðurskurður sem í dag getur ekki kallast neitt annað en fjársvelti, er án efa ein af ástæðum fyrir versnandi stöðu áfengis- og vímuefnasjúklinga, fjölgun ótímabærra dauðsfalla og biðlista sem brátt nær frá sjúkrahúsinu Vogi, alla leið niður í Skógarhlíð, þar sem ráðherrann og nefndir og ráð og stýrihópar sitja og reyna hugsa burt vandann eða bara leiða hann hjá sér.“

Arnþór segir Svandísi Svavarsdóttur, núverandi heilbrigðisráðherra, ekki bera ábyrgð á hinum langvarandi niðurskurði og ástandi vegna hans. Hún beri hins vegar ábyrgð á aðgerðum eða aðgerðarleysi dagsins í dag.

„Hér erum við að glíma við alvarlegan heilbrigðisvanda sem herjar fyrst og fremst á ungmenni og ungt fólk sem á börn á skólaskyldualdri og það ætti að vera algjört forgangsmál heilbrigðisyfirvalda að hlusta á sérfræðinga SÁÁ, taka leiðsögn þeirra og bregðast við með ábyrgum hætti. Ég hygg að almenningur í landinu sé á sama máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert