Ók bíl inn verslun og stakk af

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Arnþór Birkisson

Um ellefuleytið í gærkvöldi var bifreið ekið inn í verslun í Breiðholti. Engan sakaði en ökumaðurinn lét sig hverfa af vettvangi. Þegar lögreglan hafði samband við eiganda bifreiðarinnar kom hann af fjöllum og hafði ekki áttað sig á því að bifreiðin hafði verið tekin ófrjálsri hendi.

Um klukkan fimm í gærdag barst lögreglu tilkynning um karlmann í annarlegu ástandi á vínveitingastað í miðbænum. Hann hafði verið að meðhöndla hníf innandyra og var handtekinn.

Þá var tilkynnt um ölvaðan mann sem hafði veist að öryggisvörðum í verslun í miðbænum rétt fyrir ellefu í gærkvöldi. Hann var handtekinn og verður látinn gista fangageymslur þar til hann verður hæfur til skýrslutöku.

Rétt fyrir klukkan þrjú nótt var svo ölvaður karlmaður handtekinn á skemmtistað í miðbænum eftir að hafa verið að angra og trufla dyraverði, sjúkraflutningamenn og lögreglu sem voru að sinna öðru máli á staðnum.

Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Vesturbænum um klukkan hálffjögur í nótt. Skömmu síðar var ölvaður ökumaður handtekinn skammt frá vettvangi grunaður um að hafa orðið valdur að óhappinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þurfti einnig að hafa afskipti af nokkrum ökumönnum vegna aksturs undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert