Ekki hlaupið að því að skipta um verktaka

„Það gætu orðið tafir hjá einhverjum farþegum á morgun.“
„Það gætu orðið tafir hjá einhverjum farþegum á morgun.“ mbl.is/Eggert

Akstursþjónusta fatlaðra á vegum Strætó bs. hefur gengið vel í dag þrátt fyrir gjaldþrot verktakans Prime Tours sem hafði tuttugu bíla í rekstri. Framkvæmdastjóri Strætó ætlar að funda með lögfræðingum á morgun og fara yfir næstu skref.

„Það gætu orðið tafir hjá einhverjum farþegum á morgun en við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að minnka skaðann. Margir af okkar vertökum gera allt sem þeir geta til að aðstoða þennan viðkvæma hóp og eiga hrós skilið,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við mbl.is.

Ekki hægt að bæta við bílum hjá öðrum verktökum

Guðmundur Heiðar segir að fjárhagsvandræði Prime Tours hafi verið Strætó kunn, en samkvæmt gögnum sem Strætó hafi fengið hefði dæmið átt að geta gengið upp. Þá segir hann að fyrirtækinu sé þröngt sniðinn stakkur í kring um samninga þeirra við verktaka. „Við hlaupum ekki að því að skipta út verktökum. Við getum heldur ekki bætt við bílum hjá öðrum verktökum því samningarnir segja til um fjölda þeirra.“

Prime Tours hefur sinnt akstursþjónustu fatlaðra fyrir Strætó bs. frá árinu 2015. Einn aðili bauð í verkið en framseldi samninginn til Prime Tours. Í útboðsskilmálum er meðal annars kveðið á um hæfi sem verktakar þurfa að uppfylla, svo sem greiðsluhæfi og reynsla.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., ætlar að funda með lögfræðingum á morgun til þess að meta hvaða möguleika Strætó hefur varðandi framhaldið. Í samtali við mbl.is segir Jóhannes hendur þeirra nokkuð bundnar og að skiptastjóri hafi einnig ýmislegt um málið að segja. Komi nýr aðili inn í reksturinn þurfi sá hinn sami að uppfylla skilyrði greiðsluhæfis og rekstrarreynslu.

Strætó gerir úttekt á öryggisbúnaði bíla tvisvar á ári og þá eru lyftur, festingar, bílbelti og annar búnaður sem kveðið er á í útboðsgögnum skoðaður. Ekki er í verkahring Strætó að fylgjast með hvort ökutæki á vegum verktaka séu tryggð, en komist fyrirtækið á snoðir um slíkt, líkt og gerðist á föstudag, eru ökutækin tafarlaust tekin úr akstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert