Sólveig Anna hjólar í ritstjóra Markaðarins

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/​Hari

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hjólar í Hörð Ægisson, ritstjóra Markaðarins, í pistli sem hún birtir á Facebook nú í kvöld, en þar segir hún leiðara Harðar í Fréttablaðinu á föstudaginn lýsa „sturlaðri“ stemmningu í „herbúðum óvina vinnandi stétta“. Segir hún að í pistli sínum hafi Hörður reynt að kúga vinnandi fólk til hlýðni „með sjúkri og viðbjóðslegri orðræðu“ þar sem tilgangurinn sé að „skelfa fólk til hlýðni“.

Segist Sólveig ekki langa að svara leiðaranum þar sem hana langi ekki að virða fólk viðlits „sem beitir hiklaust hótunum“. Hins vegar verði hún að bregðast við þessari orðræðu þeirra sem tali fyrir óbreyttu ástandi og kúgun. „Þá er auðvitað ekki um annað að ræða en að sýna að í mér rennur blóð,“ segir Sólveig.

Í leiðara Harðar, sem bar yfirskriftina „Stærsta ógnin,“ sagði hann forystumenn helstu verkalýðsfélaga landsins vera stærstu ógnina gagnvart lífskjörum meginþorra íslensks launafólks á komandi árum. „Þeir vilja tefla á tæpasta vað og innleysa tugprósenta launahækkanir, sem engin innistæða er fyrir, á einu bretti,“ sagði Hörður um verkalýðsleiðtogana.

Segir Sólveig málflutning Harðar, sem hún kallar „hetjutenór grátkórs íslenskra kapítalista“, ganga út á að hér megi búast við kollsteypu ef orðið verði við kröfum vinnuaflsins um að geta lifað af dagvinnulaunum og að fá að stjórna meira af tíma sínum og lífi. „Hann segir almenningi að vænta þess að ef við stígum af braut óréttlætisins og byrjum að byggja upp efnahagslegt réttlæti muni það kosta gengishrun, óðaverðbólgu og vaxtahækkanir,“ segir Sólveig í pistil sínum.

Í leiðara sínum kallar Hörður eftir því að verkalýðshreyfingin meti kostnað við kröfur um hærri lágmarkslaun. Sólveig segir hins vegar að Hörður og „aðrar málpípur auðvaldsins“ ættu að leggja mat á kostnaðinn sem felst í því að reka samfélag sem er grundvallað á efnahagslegu óréttlæti.

Listar Sólveig því næst upp nokkur atriði sem sýni að Ísland sé ríkt land. Hins vegar geti láglaunafólk ekki komist af á dagvinnutekjum og geti ekki búið við öruggt húsnæði. Spyr hún hvort það sé byltingarkennt að vilja að fólk geti lifað af ráðstöfunartekjum sínum og unnið eina vinnu og að vilja að fjármagnseigendur axli aukna samfélagslega ábyrgð með því að greiða hærri skattprósentu. „Og ef svarið er já, þetta er byltingarkennt þá kallið mig byltingarkonu, í guðanna bænum! Megi þá helvítis byltingin lifa,“ segir Sólveig.

Lesa má pistil Sólveigar í heild sinni hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert