Undir áhrifum áfengis og svefnlyfs

Konan var á leiðinni til Grindavíkur þegar hún missti stjórn …
Konan var á leiðinni til Grindavíkur þegar hún missti stjórn á bíl sínum. mbl.is/Hanna

Kona sem lést í bílslysi á Grindavikurvegi í mars í fyrra var ekki spennt í öryggisbelti. Hún kastaðist út úr bílnum þegar hann hafnaði utan vegar og valt. Konan var undir verulegum áhrifum áfengis og einnig undir áhrifum svefnlyfs. Styrkur þess í blóði var við eitrunarmörk.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Hefði getað lifað slysið af

Fram kemur í skýrslunni að konan hafi verið ein á ferð á leið til Grindavíkur á milli klukkan 1 til 2 að nóttu til þegar hún missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hann fór út af veginum og valt. Engin vitni urðu að slysinu. Konan hlaut banvæna fjöláverka. Rannsóknarnefndin telur mögulegt að hún hefði lifað slysið af ef hún hefði notað bílbelti, þar sem aflögun á yfirbyggingu bílsins var ekki mikil.

Á þessum tíma var austanátt með um 7 m/s vindhraða, hiti um 2°C og engin úrkoma. Engin hálka var á veginum þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Leyfður hámarkshraði á vettvangi er 90 km/klst við bestu aðstæður. Útreikningur á hraða bílsins bendir til þess að hraðinn rétt fyrir slysið hafi verið á bilinu 100 til 135 km/klst.

Frá Grindavíkurvegi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá Grindavíkurvegi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Bíllinn ekki í ökuhæfu ástandi

Um var að ræða bíl af tegundinni Toyota Avensis sem var á ónegldum vetrardekkjum. Bíllinn var færður í lögbundna skoðun í febrúar 2016 og fékk fulla skoðun. Gerð var athugasemd um útílegu í hemlum og krafist var lagfæringar. Skoðun á bílnum eftir slysið leiddi í ljós að stimpill í hemladælu á hægra framhjóli var fastur og þar með engin hemlageta á því hjóli. Bíllinn var því ekki í ökuhæfu ástandi vegna ástands hemla. Rannsóknarnefndin telur í skýrslunni ekki hægt að útiloka að ójafnir hemlakraftar bílsins hafi getað átt þátt í slysinu.

Ítrekar ábendingar um ölvunarakstur

Rannsóknarnefnd samgönguslysa bendir á að undanfarin ár hafi ölvunarakstur verið algeng orsök banaslysa í umferðinni og nefnir að áfengi í bland við svefnlyf geti aukið slævandi og miðtaugakerfisbælandi áhrif hvors annars.

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um ölvunarakstur. Ökumenn sem setjast ölvaðir undir stýri skapa öðrum og sjálfum sér mikla hættu. Akstur eftir áfengisdrykkju eykur líkur á alvarlegum slysum og brýnt að allir séu á varðbergi gagnvart þessari hættu. Að mati Rannsóknarnefndar samgönguslysa er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis né undir áhrifum lyfja sem hafa áhrif á akstur,“ segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert