Verja 65 milljónum í fullveldisfagnað

Forsætisráðuneytið gerir ráð fyrir því að verja 65 milljónum króna …
Forsætisráðuneytið gerir ráð fyrir því að verja 65 milljónum króna til hátíðaviðburða sem fram fara 1. desember næstkomandi. mbl.is/Ófeigur

Áætlaður heildarkostnaður forsætisráðuneytisins vegna hátíðaviðburða sem fram fara 1. desember í tilefni af 100 ára sjálfstæði og fullveldi Íslands eru 65 milljónir króna, samkvæmt svari ráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is um kostnað ráðuneytisins vegna hátíðahaldanna.

Þar af nemur áætlaður kostnaður ráðuneytisins við sýninguna Íslendingasögur, sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu og verður sjónvarpað beint á RÚV að kvöldi dags, 30,2 milljónum króna. Um er að ræða samstarfsverkefni forsætisráðuneytisins, Hörpu og Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sýningu „í tali og tónum, sjónarspil ljósa, ljóða og lags“ eins og henni er lýst á vef fullveldisafmælisins.

Dagskrá þeirra viðburða sem ríkisstjórn Íslands stendur fyrir þennan dag liggur ekki að fullu fyrir, en verður opinberuð þegar nær dregur. 

Framlög ráðuneytisins til einstakra viðburða nema 11 milljónum króna, auk þess sem áætlaður kostnaður ráðuneytisins við setningarathöfnina nemur 4,2 milljónum króna. Hún verður haldin við stjórnarráðshúsið.

Átta milljónum verður varið í kynningarefni og auglýsingar vegna fullveldishátíðarinnar, auk þess sem áætlaður kostnaður vegna funda og hugmyndavinnu nemur 1,6 milljónum króna.

„Hafa ber í huga að hér er einungs talinn sá kostnaður sem forsætisráðuneytið mun greiða og bera ábyrgð á vegna fullveldishátíðarinnar, en ýmsar menningarstofnanir þjóðarinnar leggja hátíðinni til viðburði. Einhverjir viðburðir njóta stuðnings úr sjóði afmælisnefndar fullveldis-afmælisins en eru að öðru leyti á ábyrgð stofnana, félagasamtaka, sveitarfélaga eða einstakra listamanna,“ segir í svari Ágústs Geirs Ágústssonar, skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins, við fyrirspurn blaðamanns.

Fjölþætt hlutverk verkefnastjóra

Áætlaður kostnaður vegna yfirumsjónar með hátíðaviðburðunum eru 10 milljónir króna, en inni í þeirri tölu eru greiðslur til Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem ráðin var sem verkefnastjóri þeirra. Verktakasamningur hennar kveður á um ákveðinn hámarkstímafjölda á mánuði, eða 100 tíma, og rennur út um áramót.

Í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á Alþingi á dögunum kom fram að 8. október síðastliðinn hefði ráðuneytið verið búið að greiða Kolbrúnu 7,5 milljónir króna á grundvelli samningsins.

Í starfi sínu fyrir ráðuneytið hefur Kolbrún haft umsjón með „skipulagningu hátíðarhalda, vali viðburða, innihaldi og útfærslu. Það verk er unnið í nánu samstarfi við helstu menningarstofnanir þjóðarinnar, afmælisnefnd fullveldisafmælisins, Reykjavíkurborg og stofnanir, félög og einstaklinga utan höfuðborgarsvæðisins sem leggja hátíðinni til viðburði,“ samkvæmt svari ráðuneytisins.

Þá hefur Kolbrún sinnt samræmingarhlutverki við heimsóknir þeirra erlendu gesta sem heiðra munu þjóðina á fullveldishátíðinni og verða hér í boði embættis forseta Íslands og forsætisráðuneytisins, auk þess sem hún hefur tekið virkan þátt í samráðshópi stjórnarráðsins um hátíðarhöldin. Þá á Kolbrún sem verkefnisstjóri einnig í samstarfi við Ríkisútvarpið, „sem gera mun fullveldishátíðinni skil í dagskrá sinni í aðdraganda 1. desember og á fullveldisdeginum sjálfum, m.a. með beinni útsendingu sjónvarps á hátíðarviðburði í Eldborg,“ segir í svari ráðuneytisins við spurningu blaðamanns um það hvað felist í starfi verkefnastjórans.

Kolbrún hefur einnig sinnt öðrum verkefnum sem hafa tengsl við fullveldisafmælið, m.a. undirbúningi stofnunar Barnamenningarsjóðs Íslands, undirbúningi samræmdar miðlunar arfleifðar Jóns Sigurðssonar, auk þess sem hún hafði aðkomu að skipulagningu morgunathafnar á Austurvelli á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2018.

Hápunkturinn í fullveldisfögnuðinum

Segja má að þeir hátíðaviðburðir sem ríkisstjórnin stendur fyrir 1. desember verði hápunkturinn í sjálfstæðis- og fullveldishátíðarhöldum Íslendinga sem staðið hafa yfir allt árið með margvíslegum viðburðum um allt land, en á meðal erlendra gesta sem taka þátt í fögnuðinum á sjálfan fullveldisdaginn, 1. desember, verður Margrét Þórhildur Danadrottning.

18. júlí síðastliðinn var haldinn hátíðarþingfundur á Þingvöllum, sem helst er eftirminnilegur fyrir gagnrýni og umræðu sem skapaðist, annars vegar um persónu danska þingforsetans Piu Kjærsgaard og hins vegar um kostnað Alþingis vegna fundarins, sem var þegar upp var staðið 87 milljónir króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert