Dæmdur fyrir að skalla mann

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður var í dag dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás á bifreiðastæði utan við lager Skagans hf. á Akranesi í janúar 2016. Var maðurinn ákærður fyrir að hafa veist að öðrum karlmanni þegar hann steig út úr bifreið sinni og skallað hann í andlitið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut nefbrot, bólgur og mar í andliti.

Hinn dæmdi sagðist hafa hitt þann sem fyrir árásinni varð um morguninn þennan dag og ákveðið að nota tækifærið og segja honum að hætta að bera út þær sögur að hann væri fíkniefnasali. Vildi hann meina að fórnarlambið hefði þá ráðist á sig og reynt að skalla hann. Hinn dæmdi hafi þannig aðeins verið að verja sig fyrir árásum hins mannsins.

Sá sem fyrir árásinni varð sagði hins vegar að hinn dæmdi hefði ráðist á sig og skallað fyrirvaralaust. Fram kemur í dómnum að óljóst sé hvort þeirra hafi átt upptökin en hins vegar sé ekki hægt að fallast á það að hinn dæmdi hafi átt hendur sínar að verja í ljósi þess að hann sé mun meiri að líkamsburðum en sá sem fyrir árásinni varð.

Hinn dæmdi sagði fyrir dómi að sögur um að hann hefði verið að selja fíkniefni væru rangar. Hann hefði aldrei komið nálægt fíkniefnum. Hins vegar kemur fram í dómnum að hann hafi þrisvar sinnum verði sektaður fyrir fíkniefnabrot og einu sinni fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. 

Var hann einnig dæmdur til þess að greiða 632.400 krónur í málsvarnarlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert