Íslendingar alltaf að hugsa um vinnuna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/​Hari

Það skiptir miklu máli að við sköpum samfélag með jafnvægi milli heimilis og vinnustaðar, þar sem fólk getur lifað af launum sínum, sinnt fjölskyldu sinni og haft sín áhugamál. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ráðstefnu um vellíðan á vinnustað á vegum Hagvangs í dag.

Hún sagði að streita og lífsstílstengdir sjúkdómar vegna mikils álags í starfi yrðu eitt stærsta viðfangsefni stjórnmálanna á næstu árum. Við Íslendingar værum ef til vill að átta okkur á þessu seinna en aðrar þjóðir og Katrín nefndi að eitt af stóru málunum í umræðu í Danmörku væri streita.

„Við erum æ fleiri að átta okkur á því að við eyðum alveg gríðarlegum tíma á vinnustöðum,“ sagði Katrín og bætti við að hún hefði fengið samviskubit þegar hún hiti nokkrar konur sem vinna á Alþingi fyrir ráðstefnuna.

„Ég sagði þeim að ég ætti ekki að ræða vellíðan á vinnustað við þær en þær glottu bara,“ sagði Katrín og bætti við að vinnutíminn á Alþingi væri mjög skrýtinn.

Forsætisráðherra sagði að lífsstílstengdir sjúkdómar og streita hefðu ekki verið til umræðu fyrir um 20 árum en þá hafi vinnuumhverfi verið öðruvísi. „Þá voru engir samskiptamiðlar og það var ekki hægt að vera í stöðugum samskiptum við starfsfólk,“ sagði Katrín og bætti við að núna væri alltaf hægt að ná í fólk og þar af leiðandi væri það alltaf í vinnunni.

Katrín sagði að Íslendingar, ólíkt öðrum Evrópubúum, hafi svarað því játandi að þeir skoði vinnupóstinn á kvöldin. „Íslendingar gera það alltaf og eru stöðugt að hugsa um vinnuna,“ sagði Katrín.

Hún sagðist viss um að mál tengd vellíðan fólks á vinnustöðum eigi eftir að verða meira í umræðunni á næstunni. „Fólk hugsar sjaldan þegar það eldist „ég vildi að ég hefði verið meira í vinnunni“. Fólk hugsar frekar að það hefði viljað vera með börnunum eða vinunum. Við eigum að sjá til þess að fólk líti um öxl og finnist það ekki hafa misst af einhverju.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert