Vill gera breytingar og hreinsa til

Aðalsteinn Árni Baldursson.
Aðalsteinn Árni Baldursson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ég hef verið talsmaður þess að gera verulegar breytingar á hreyfingunni og hreinsa til, eins og ég kalla það,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar á Húsavík. Þing ASÍ hefst á morgun en Aðalsteinn vill ekki gefa út hvern hann styður til forseta sambandsins.

„Þetta er fólk sem starfar með mér innan Starfsgreinasambandsins og ég hef ekkert viljað gefa það út hvar minn stuðningur liggur þó að ég hafi skoðanir á þessu,“ segir Aðalsteinn sem segir að breytingar séu löngu tímabærar hjá ASÍ. 

Tvö hafa tilkynnt framboð til forseta ASÍ, þau Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS, og Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Afls.

Aðalsteinn nefnir ummæli Guðmundar Ragnarssonar, fyrrverandi formanns VM, sem skýrt dæmi um þær breytingar sem þurfi að eiga sér stað. Guðmundur tapaði formannskjöri í VM í vor og sagði í pistli á Facebook að stefna nýrrar forystu í verkalýðshreyfingunni væri að fólk yrði að víkja ef einhver væri ekki sammála þeim.

„Ég hlustaði á Guðmund Ragnarsson í kvöldfréttunum í gær skjóta í kaf og gera lítið úr kröfum fólks sem er [með] innan við 300 þúsund krónur á mánuði í laun. Fyrrverandi miðstjórnarmaður í ASÍ lætur þessi orð falla og það er engin gleði hjá láglaunafólki á Íslandi með slík ummæli. Þá sést hvernig menn hugsa en það er ekki eftirspurn eftir svona fólki í dag,“ segir Aðalsteinn.

Aðspurður segist Aðalsteinn hafa verið beðinn um að bjóða sig fram til forseta ASÍ og hafi fengið til þess góðan stuðning. „Hugur minn er ekki þar í dag. Ég hefði kannski gert það fyrir tíu árum en ég er sjálfur að kalla eftir breytingum og nýju fólki, ákveðinni endurnýjun. Ég kalla eftir því að öflugt ungt fólk komi til starfa fyrir hreyfinguna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert