„Arnarhóll hefur aldrei verið fegurri“

Fjöldi kvenna kom saman í góða veðrinu á Arnarhóli.
Fjöldi kvenna kom saman í góða veðrinu á Arnarhóli. mbl.is/Eggert

Mikill baráttuhugur var í konum sem fjölmenntu á Arnarhól í tilefni af kvennafrídeginum. Konur voru hvattar til að leggja niður störf klukk­an 14:55 í dag. Kjör­orð Kvenna­frís 2018 eru: „Breyt­um ekki kon­um, breyt­um sam­fé­lag­inu!“

Í ár er vak­in sér­stök at­hygli á kyn­bundn­um mun at­vinnu­tekna, sem og al­mennu ör­yggi kvenna á vinnu­stöðum. Fjöl­mörg sam­tök kvenna og launa­fólks standa að Kvenna­fríi, auk þess sem for­sæt­is­ráðuneytið hef­ur lagt verk­efn­inu lið.

„Arnarhóll hefur aldrei verið fegurri en þegar það sést ekki í hann fyrir konum,“ sagði Saga Garðarsdóttir en hún og Ilmur Kristjánsdóttir voru fundarstýrur. „Það er magnað að finna samstöðuna,“ bætti Saga við.

Frá samstöðufundinum á Arnarhóli.
Frá samstöðufundinum á Arnarhóli. mbl.is/Eggert

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði að það væri hneyksli að konur væru enn verðlagðar lægra en karlar fyrir vinnuframlag sitt. Hún sagði að konur þurfi enn að horfast í augu við kerfisbundna kúgun, ofbeldi og að konur séu hlutgerðar, hæddar og smánaðar í kapítalísku samfélagi.

Sættum okkur ekki við óbreytt ástand

„Við erum ekki útsöluvara,“ sagði Sólveig og bætti við að konur eigi að vera stoltar af stórkostlegu mikilvægi sínu. „Setjum fram í alvöru þá kröfu sem við eigum allan heimsins rétt á; mannsæmandi laun fyrir unna vinnu. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu.“

Hún sagði að vandamálið væri ekki það að vanti karla í kvennastörf heldur væri vandamálið það að kvennastörf væru verðlögð af nísku. Verka- og láglaunakonur væru efnahagslega og pólitískt jaðarsettar.

„Við ætlum að taka pólitískt og efnahagslegt pláss og sættum okkur ekki við óbreytt ástand. Við höfum ekki brotnað heldur rísum upp. Verka- og láglaunakonur eiga að fá allt það pláss sem þær eiga skilið,“ sagði Sólveig og bætti við að það væri ekki hægt að sætta sig við óbreytt ástand:

„Tíminn er runninn upp. Við ætlum að frjálsar undan kúgun. Lifi kvenfrelsið, lifi samstaðan, lifi baráttan.“

Margar komu með baráttuskilti, þar sem meðal annars var minnst …
Margar komu með baráttuskilti, þar sem meðal annars var minnst á #metoo-byltinguna. mbl.is/Eggert

Áslaug Thelma Einarsdóttir, sem var rekin úr starfi sínu sem forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar, sagði að það væri auðvelt að fordæma menn eins og Donald Trump eða Harvey Weinstein á Facebook. Málin færu að vandast þau málin standa fólki nær.

Enginn staður fyrir rudda og dóna á vinnustöðum

Áslaugu var sagt upp störf­um hjá Orku nátt­úr­unn­ar, dótt­ur­fyr­ir­tæki Orku­veit­unn­ar, um miðjan september. Hún hef­ur gagn­rýnt fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra ON, Bjarna Má Júlí­us­son, fyr­ir óviðeig­andi hegðun gagn­vart starfs­fólki fyr­ir­tæk­is­ins.

Áslaug sagði að það væri erfitt að fara til yfirmanna sinna til að tilkynna brot á eigin vinnustað. 

„Spor þín eru þung á fyrsta fundinn með starfsmannastjóra, þyngri á fund tvö og svo framvegis. Erindið er alltaf það sama. Þú ert að tilkynna ruddaskap og dónaskap á þínum vinnustað. Örvæntingin er mikil þegar starfsmannastjórinn segir þér að spjalla við hann og finna út úr þessu,“ sagði Áslaug.

Áslaug Thelma Einarsdóttir.
Áslaug Thelma Einarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Örvæntingin er meiri þegar þú ert rekin án útskýringa,“ bætti Áslaug við. Málið hafi síðan farið á flug á samfélagsmiðlum þar sem hún hafi fundið fólk sem standi með henni í óréttlætinu. „Það er erfitt að heyra að yfirmaðurinn sé svo góður rekstrarmaður og að það þurfi að gefa honum séns og þess vegna hafi þurft að reka þig.“

Hún sagði að tilfinningin eftir fundinn hafi verið ógeðfelld. Henni hafi verið boðin aðeins lengri uppsagnarfrestur en í stað þess yrði hún að láta þetta yfir sig ganga. „Hljómar þetta eins og frábær díll?“ spurði Áslaug en allur fjöldinn á Arnarhóli öskraði „nei“.

Áslaug sagði að ferill hennar sem stjórnandi væri laskaður og hún hefði lent í skelfilegum hvirfilbyl af því að hún vildi ekki sitja undir áreitni og einelti á vinnustað. 

„Það á enginn að þurfa að óttast um velferð eða lífsviðurværi við það eitt að setja eðlileg mörk. Það er enginn staður fyrir rudda og dóna á vinnustöðum. Það er nóg pláss fyrir gagnkvæma virðingu,“ sagði Áslaug og bætti því við að hún sæi ekki eftir því að hafa staðið upp og myndi gera það aftur.

„Ég verð að trúa því að svona breytum við samfélaginu. Með einu skrefi í einu. Þorum að standa með konum. Þorum að skila skömminni þangað sem hún á heima.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert