Aukinn jöfnuður alltaf markmiðið

Katrín segir liggja fyrir að markmið ríkisstjórnarinnar með breytingunum sé …
Katrín segir liggja fyrir að markmið ríkisstjórnarinnar með breytingunum sé að þær leiði til aukins jafnaðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hátekjuskattur hefur ekki verið ræddur sérstaklega á vettvangi ríkisstjórnarinnar en fyrir liggur að yfirstandandi endurskoðun skatta- og bótakerfa miðar að auknum jöfnuði.

„Ég hef lagt á það áherslu á mikilvægi þess að bæði einkageirinn og hið opinbera gangi á undan með góðu fordæmi nú þegar kjarasamningar eru framundan og sjái til þess að á sama tíma verði ekki farið í umfangsmiklar launahækkanir í efstu lögum samfélagsins,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, þegar hún er spurð út í ummæli félags- og jafnréttismálaráðherra þess efnis að hann muni standa með verkalýðshreyfingunni um álagningu hátekjuskatts, næðist ekki samstaða um að koma böndum á hæstu laun samfélagsins.

„Það er auðvitað stjórnvalda að afgreiða breytingar í skattamálum og þar stendur yfir vinna við endurskoðun skatta- og bótakerfa þar sem samspil kerfanna tveggja eru skoðuð. Yfirlýsingar stjórnvalda hafa verið mjög skýrar um að þar sé horft til lágtekjuhópa og lægri millitekjuhópa,“ segir Katrín, en aðspurð um eiginlegan hátekjuskatt segir hún hann ekki hafa verið sérstaklega ræddan á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Hins vegar segir hún liggja fyrir að markmið ríkisstjórnarinnar með breytingunum sé að þær leiði til aukins jafnaðar. „Og það hafa þær gert. Við hækkuðum fjármagnstekjuskatt og síðan höfum við lagt fram tillögur um hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar umfram neysluvísitölu og samræmingu viðmiðunarfjárhæða í skattkerfinu þannig að efri mörk skattkerfisins fylgi sömu vísitölu og neðri mörk, sem hefur ekki verið raunin.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert