Ráðherra styður álagningu hátekjuskatts

Ásmundur sagði launavitleysunni í efsta lagi samfélagsins verða að linna.
Ásmundur sagði launavitleysunni í efsta lagi samfélagsins verða að linna. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, ætlar að styðja verkalýðsfélögin í að setja hátekjuskatt á hæstu tekjur samfélagsins, náist ekki samstaða um að koma á þau böndum. Þetta kom fram í máli ráðherra við opnunarathöfn 43. þings Alþýðusambands Íslands.

Ráðherra sagði efstu laun víða algerlega úr takti við það sem almennt gerist í samfélaginu, og að opinber og almennur vinnumarkaður verði að taka á þessu.

Tvær leiðir sagði hann möguleikar til þess að taka á launum í efsta lagi samfélagsins: að aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman til þess að taka á efstu launum samfélagsins eða beita skattkerfinu.

„Þessari vitleysu í efsta laginu verður að linna. Ef ekki næst samstaða um að stíga skref til þess að koma böndum á efstu laun samfélagsins þá mun sá sem hér stendur styðja verkalýðshreyfinguna í að setja hátekjuskatt á hæstu tekjur íslensks samfélags,“ sagði Ásmundur Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert