Gefur ekki upp hver fékk skattskrána

Hrannar Pétursson.
Hrannar Pétursson.

„Ég nálgaðist þessi gögn bara sem starfandi ráðgjafi úti í bæ fyrir aðila sem óskaði minnar aðstoðar við að afla þeirra,“ segir Hrannar Pétursson. Einkahlutafélagið G47, í eigu Hrannars, er annar tveggja aðila sem fengu afhentar til útgáfu skattskrár Íslendinga frá Ríkisskattstjóra, vegna álagningarársins 2016.

Greint er frá því á vef Rúv að einkahlutafélagið G47 og Sigurjón Þorbergsson hafi fengið skattskrárnar. Þær liggja til grundvallar þeim upplýsingum sem vefurinn tekjur.is gefur upp en þar er hægt að fletta upp tekjum allra Íslendinga yfir 18 ára aldri fyrir árið 2016.

Hrannar segist hafa fengið gögnin afhent í maí. Spurður hvort hann tengist vefnum tekjur.is segist hann hafa nálgast skattskrárnar sem starfandi ráðgjafi fyrir aðila sem óskaði aðstoðar hans. „Ég get ekki svarað öðru en því,“ segir Hrannar.

Þetta kemur fram í bréfi mínu til skattstjóra á sínum tíma. Þá óskaði ég eftir þeim fyrir hönd umbjóðanda,“ segir Hrannar sem vill ekki gefa upp hver umbjóðandi hans er:

„Eins og almennt gildir um störf á ráðgjafarmarkaði eru menn ekki að tjá sig um einstaka viðskiptavini eða samskipti við þá. Um það gildir trúnaður.

Hann segist ekki geta sagt til um hvort sá maður standi að baki vefnum tekjur.is. „Ég veit að sá ágæti vefur er með talsmann, sem er lögmaður úti í bæ, og hann getur væntanlega sagt til um það,“ en lögmaður vefsins tekjur.is er Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert