„Þetta er ekki framtíðarstarf“

Ungur maður háþrýstiþvær gangstéttina fyrir utan Þjóðleikhúsið. Mynd úr safni.
Ungur maður háþrýstiþvær gangstéttina fyrir utan Þjóðleikhúsið. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

„Þetta er fólk sem kemur úr skólakerfinu, margt með brotna reynslu, og þarna er virkilega tækifæri til að byggja sig upp, en þau segja mörg: „Þetta er ekki framtíðarstarf“ og þau fara á milli starfa,“ segir Guðbjörg T. Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands, um rannsókn sem hún er að vinna um ungt fólk á vinnumarkaði án formlegrar menntunar á framhaldsskólastigi.

Athuganir Guðbjargar eru hluti af alþjóðlegri rannsókn sem beinist að því að skoða viðhorf og stöðu fólks á aldrinum 20-24 ára sem hefur ekki lokið formlegu námi eftir grunnskóla en er í starfi. Um er að ræða fólk á svokölluðum „upprennandi fullorðinsárum“ (e. emerging adulthood), því þroskaskeiði sem nær yfir aldursbilið 18-25 ára.

Hugmyndin um að þetta aldursskeið sé sérstakt þroskaskeið sem þurfi að skoða sérstaklega kemur frá fræðimönnum í þroskasálfræði. Að sögn Guðbjargar er þetta tímabilið þegar fólk er hætt að vera unglingar en samt ekki enn orðið fullorðið.

Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, prófessor í náms- og starfsráðgjöf við Háskóla Íslands.

Rannsóknin er unnin út frá hugtökum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um mannsæmandi störf, enda hafa rannsóknir sýnt að staða ungs fólk á vinnumarkaði er víða bág og störf ungs fólks bæði illa launuð og erfið. Tilgangur rannsóknarinnar er þannig að draga fram samanburð um stöðu þessa tiltekna hóps ungs fólks á milli landa.

Allir ætla inn í skólakerfið að nýju

Guðbjörg hefur tekið viðtöl við sjö einstaklinga á aldrinum 20-24 ára, sem eru í fullu starfi en hafa ekki lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi, en hún ætlar að ræða við nokkra til viðbótar. Fólkið hefur flosnað upp úr námi af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna fátæktar, leserfiðleika eða þess að það hefur ekki fundið sitt áhugasvið.

Helstu niðurstöður hennar hingað til eru þær að almennt líti unga fólkið jákvætt á störf sín, telji þau vel launuð og mannsæmandi, auk þess sem að með störfum sínum öðlist þau ýmsa reynslu og færni, jafnvel bara reynslu af því að vakna á morgnana, fara til vinnu og fá ábyrgð.

„Þetta er jákvætt fólk sem horfir björtum augum til framtíðar þrátt fyrir að kerfið svona að einhverju leyti skilgreini þau eins og þau vanti eitthvað því þau hafa ekki menntun,“ segir Guðbjörg, en allir þeir sem hún hefur rætt við á þessu stigi rannsóknarinnar telja leið sína munu liggja inn í skólakerfið að nýju, á einhverjum tímapunkti.

„Til þess að komast á framtíðarstaðinn þurfa þau að fara í gegnum skólana. Það vantar einhverja svona þjónustulund í skólakerfið til þess að koma til móts við þennan hóp sem er eins og þessi hópur. Þau eru á milli þess að vera unglingar og fullorðin, eiga samt kannski fjölskyldur sjálf og rekast illa í kerfinu okkar. Þetta er fólk með jákvæða sýn á framtíðina og störfin sín, en þegar það lítur til framtíðar og hvað það vill gera liggur leiðin alltaf um skólakerfið.“

Húsnæðisvandinn vekur athygli erlendis

Fjórir af þeim sjö einstaklingum sem Guðbjörg hefur þegar rætt við eru foreldrar. Þeir eiga það allir sameiginlegt að búa eða hafa búið með fjölskyldu sína heima hjá foreldrum sínum eða tengdaforeldrum.

„Þarna erum við að horfa á birtingarmynd húsnæðisvanda ungs fólks og þetta vekur alltaf athygli þegar ég kynni þetta á erlendri grundu og fólk spyr hvernig standi á þessu hjá okkur,“ segir Guðbjörg, sem kynnir niðurstöður sínar á félagsvísindaráðstefnunni Þjóðarspeglinum 2018, sem fram fer í Háskóla Íslands á morgun.

Dagskrá Þjóðarspegilsins í heild sinni má nálgast hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert