Þungunarrof verði heimilt út 22. viku

Ljósmynd/Velferðarráðuneytið

Samkvæmt nýju frumvarpi um þungunarrof sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja fram verður þungunarrof heimilt fram að lokum 22. viku meðgöngu. Þá er lagt til að hugtakið þungunarrof verði notað en ekki fóstureyðing, eins og er í núverandi lögum.

Núverandi lög kveða á um að heimild til fóstureyðingar verði að grundvallast á læknisfræðilegum eða félagslegum ástæðum, eða þegar þungun er afleiðing refsiverðrar háttsemi. Við þessar aðstæður er fóstureyðing heimil til loka 16. viku meðgöngu. Þá er við sérstakar aðstæður, „séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs“, hægt að veita heimild til fóstureyðingar eftir 16 vikur.

Ráðuneytið birti drög í samráðsgátt stjórnvalda í haust og þar var gert ráð fyrir að hægt væri að framkvæma þungunarrof að ósk konu, óháð ástæðum að baki þeim vilja, fram að 18. viku. Einnig var í drögunum gert ráð fyrir takmörkuðum heimildum fyrir þungunarrofi eftir lok 18. viku ef lífi konu væri stefnt í hættu með áframhaldandi þungun eða ef fóstur teldist ekki lífvænlegt til frambúðar

Segir í tilkynningu frá ráðuneytinu að eftir umsagnir og athugasemdir við drög að frumvarpinu hafi ráðherra ákveðið að leggja frumvarpið fram þannig að viðmið heimildar til þungunarrofs verða við lok 22. viku. Gildir þá einu hvaða ástæður liggja að baki ef vilji hlutaðeigandi konu er skýr. Í frumvarpinu verður, líkt og í gildandi lögum, lögð áhersla á að þegar þungunarrofs er óskað skuli það ætíð framkvæmt eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku.

mbl.is