Segir stöðu Sigríðar óbreytta

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að staða Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra hafi ekkert breyst við dóm héraðsdóms í gær.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Rúv.

Ríkið var dæmt til að greiða Jóni Hösk­ulds­syni héraðsdóm­ara 5,1 milljón í skaða- og miskabætur vegna ákvörðunar dóms­málaráðherra að líta fram hjá hon­um þegar skipað var í embætti dóm­ara við Lands­rétt.

Þá var í öðru máli viður­kennd bóta­skylda rík­is­ins í sam­bæri­legu máli Ei­ríks Jóns­son­ar laga­pró­fess­ors sem einnig hafði verið meðal um­sækj­enda um starf dóm­ara við Lands­rétt.

„Það var algjörlega fyrirsérð að það myndu falla bætur í skaut þeim sem þarna áttu í hlut og hafði verið gert ráð fyrir því áður,“ sagði Bjarni í samtali við Rúv.

Kæra vegna hæfis fjögurra dómara við Landsrétt fær flýtimeðferð hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður, sem sá um að kæra málið til Mannréttindadómstólsins, sagði í samtali við Rúv að hann hefði frest til 23. nóvember til að gera athugasemdir við málatilbúnað ríkisins og koma á framfæri bótakröfu fyrir hönd umbjóðanda síns.

Þegar þær upplýsingar lægju fyrir fengi ríkið tækifæri til að gera athugasemdir áður en málið færi í dóm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert