Braut gegn leigubílstjóra á Þjóðhátíð

Konan var að keyra manninum úr Herjólfsdal þegar hann braut …
Konan var að keyra manninum úr Herjólfsdal þegar hann braut gegn henni. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á fimmtugsaldri var í gær dæmdur í 45 daga skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 350 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa áreitt leigubílstjóra kynferðislega í Vestmannaeyjum meðan Þjóðhátíð stóð yfir. Maðurinn reyndi meðal annars að grípa utanklæða í brjóst og kynfæri bílstjórans og viðhafði kynferðisleg ummæli.

Var konan að keyra manninn úr Herjólfsdal þegar hann hóf að áreita hana kynferðislega með því að reyna að grípa í brjóst hennar og kynfæri. Gerði hún athugasemdir við athæfi mannsins og hafi hann að lokum hætt því. Þegar þau komu á leiðarenda hafi hann svo ekki viljað borga fargjaldið og talið það hátt og kallaði konan þá á aðstoð lögreglu.

Kom fram við skýrslutöku yfir öðrum leigubílstjórum að þegar konan hefði kallað eftir aðstoð hefði hún virst óttaslegin og í miklu uppnámi. Þá hefði hún tjáð tveimur bílstjórum sem fyrst komu á vettvang að maðurinn hefði snert sig og leitað á sig. Þá lýstu vitnin að hún hefði verið skelfingu lostin og miður sín af hræðslu.

Maðurinn viðurkenndi að hafa rifið kjaft við konuna og verið dónalegur þegar hann hefði verið rukkaður um fargjaldið, sem honum þótti of hátt, en hann neitaði að hafa áreitt konuna. Sagðist hann mögulega hafa kallað hana tussu, en tók fram að hann ætti það til að vera ljótur í kjaftinum. Einnig sagði hann að vel gæti verið að hann hefði spurt brotaþola hvernig hún væri í bólinu. 

Við ákvörðun sína segir í dóminum að stuðst sé við að framburður konunnar hafi verið samhljóða hjá lögreglu og dómi og þótt trúverðugur. Þá renni framburður vitna stoðum undir frásögn hennar. „Að þessu virtu þykir dóminum sannað að ákærði hafi í umrætt sinn gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir,“ segir í dóminum.

Málið kom fyrst á borð lögreglu 1. ágúst 2015, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 1. mars á þessu ári. Segir í dóminum að töf þessi á meðferð málsins sé ekki réttlætt á neinn hátt og verði ekki rakin til mannsins. Sem fyrr segir var maðurinn einnig dæmdur til að greiða konunni 350 þúsund krónur í miskabætur, en hún hafði farið fram á 500 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert