Dorrit ætlar að láta klóna Sám

Dorrit og hundurinn Sámur á góðri stundu.
Dorrit og hundurinn Sámur á góðri stundu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hundurinn Sámur, sem er í eigu fyrrverandi forsetahjónanna Ólafs Ragnars Grímssonar og Dorritar Moussaieff, gæti orðið fyrsti hundurinn á Íslandi sem verður klónaður.

Tekin hafa verið sýni úr Sámi sem hægt er að rækta úr frumur í þeim tilgangi að klóna hundinn. Frá þessu greindi Ólafur í viðtali í Morgunkaffinu á Rás 2 í morgun.

Eftir heldur formlegri umræður um norðurslóðir, Arctic Circle og umhverfismál snerist talið að persónulegri málum og spurði Gísli Marteinn Baldursson, annar umsjónarmaður þáttarins, hvort Ólafur ætti ekki hund sem héti Sámur, en sjálfur er Gísli Marteinn mikill áhugamaður um hunda.

„Já já, eða Dorrit á hann. Það er mikilvægt að hafa það rétt,“ svaraði Ólafur, sem sagði einnig að hann hefði aldrei verið mikill hundamaður en hundaáhuginn hefði kviknað eftir ferð þeirra Dorritar, ásamt dætrum og barnabörnum Ólafs, um Suðurland þar sem þau gistu meðal annars í Fljótshlíð og kynntust hundi á bóndabæ í grenndinni.

Útvegaði Dorrit hund vegna ástar sinnar á henni

„Dorrit sá þessa tík sem var þarna á sveitabænum og hændist mjög að henni og áttaði sig á því að þetta væri mjög sérstakur hundur,“ sagði Ólafur, sem ákvað, vegna ástar sinnar á Dorrit, að útvega henni hund og úr varð að Dorrit eignaðist afkvæmi tíkurinnar á bænum þar sem eigendur hans gátu ekki haldið honum.

Ólafur tók dyggan þátt í uppeldi Sáms og lýsti hann því meðal annars hvernig hann gekk inn í bókabúðina í Harrods-keðjunni og keypti fimm bækur um hundahald.

Ólafur hikaði örlítið áður en hann sagði frá ákvörðuninni um að klóna Sám, sem er alfarið ákvörðun Dorritar að hans sögn, en þáttarstjórnendur hvöttu hann til að halda áfram. Ólafur sagði  að sýni hefðu verið tekin úr Sámi og send til fyrirtækis í Texas í Bandaríkjunum sem hefði ræktað úr þeim frumur. Úr þeim er hægt að klóna Sám hvenær sem er.

Fyrrverandi forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussai­eff.
Fyrrverandi forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussai­eff. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ætla að bíða með klónunina þar til Sámur er allur

„Sámur er orðinn nokkuð gamall, hann er orðinn ellefu ára, þannig að Dorrit ákvað að láta klóna hann. Það eru sem sagt tvö fyrirtæki í heimi sem klóna hunda. Annað er í Texas og hitt er í Suður-Kóreu,“ sagði Ólafur og lýsti því þegar hjónin fóru til dýralæknis þar sem sýni var tekið af húðinni og sent út til Texas.

„Nú er búið að rækta úr því frumur og hvenær sem við viljum og erum tilbúin fáum við nýja Sám. Dorrit ákvað að gera það ekki fyrr en Sámur væri allur. Ég veit ekki hvort Sámur yrði þá fyrsti hundurinn á Íslandi sem yrði klónaður,“ sagði Ólafur.

Hann viðurkennir að sér finnist tilhugsunin ögn óhugnanleg en vísindin séu merkileg og skemmtileg. „Ég hef sagt við barnabörn mín að þegar þau eru búin að stofna heimili og eignast sín eigin börn þá geta þau pantað sinn eigin Sám frá Texas,“ sagði Ólafur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert