Það lokar enginn vegum án leyfis

Hópi fólks er nóg boðið að ekki sé búið að …
Hópi fólks er nóg boðið að ekki sé búið að tvöfalda tvíbreiðan kafla á Reykjanesbraut. Nú er boðað til mótmæla. mbl.is/RAX

„Það hefur enginn leyfi til að loka vegi án leyfis,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. Hópurinn Stopp hingað og ekki lengra! boðar lokun brautarinnar í mótmælaskyni.

„Við vegum þetta og metum þegar þar að kemur. Ef þetta truflar gang samfélagsins og rýrir umferðaröryggi grípum við til okkar ráða,“ segir Guðbrandur en bætir við að auðvitað sé ævinlega fyrst reynt að höfða til skynsemi fólks.

„Það er lýðræðislegur réttur að mótmæla en það takmarkast við það ef þetta skapar hættu, ef þetta er meiðandi eða skemmir eignir fólks.“ Guðbrandur segir að það sé þá sem lögreglan grípi inn í.

„Annars er það bara að anda rólega. Vissulega skil ég áhyggjur fólks en betra er ef fólk fer ekki að hlaupa á sig með svona aðgerðum. Það getur bitnað á þeim sem síst skyldi,“ segir hann. „Þar að auki er ekki útséð að þetta sé vegna vegakerfisins. Ýmsir aðrir þættir spila inn í svona mál, eins og athygli ökumanns.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert