Aðalmeðferð yfir Thomasi hefst í dag

Thomas Møller Olsen í Landsrétti í morgun.
Thomas Møller Olsen í Landsrétti í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag hefst aðalmeðferð í Landsrétti í dómsmáli gegn Thom­asi Møller Ol­sen, sem í héraði var dæmd­ur í nítj­án ára fang­elsi fyr­ir að hafa myrt Birnu Brjáns­dótt­ur 14. janú­ar í fyrra og fyrir stór­fellt fíkni­efna­brot.

Gert er ráð fyrir að skýrslutökur standi yfir í dag, en ekki er ljóst hvort málflutningur saksóknara og ákæruvalds klárist í dag eða á morgun. Dómari hefur bannað umfjöllun fjölmiðla frá réttarhöldunum meðan skýrslutökur fara fram, en það er gert til að koma í veg fyrir að vitni viti hvað önnur vitni hafi sagt fyrr en skýrslutökum er að fullu lokið.

Mál Thomasar vakti þjóðarathygli í janúar í fyrra, en fyrst lýsti lögreglan eftir Birnu sólarhring eftir að síðast sást til hennar í miðborg Reykjavíkur. Síðar beindist grunur að hafnarsvæðinu í Hafnarfirði þar sem togarinn Polar Nanoq hafði verið við bryggju. Var togaranum snúið við, en hann var þá á leið til Grænlands til veiða. Voru tveir menn handteknir um borð, fyrrnefndur Thomas auk annars skipverja að nafni Nikolaj Olsen. Voru þeir báðir í gæsluvarðhaldi í nokkurn tíma, en Nikolaj var síðar sleppt og taldi ákæruvaldið hann ekki bera sök á andláti Birnu.

Thomas var í héraði fundinn sekur um að hafa myrt Birnu, en umfjöllun fjölmiðla í kringum réttarhöldin og á meðan þeim stóð var umfangsmikil. Var meðal annars skrifað beint upp úr skýrslutökum og það jafnhraðan birt á vefmiðlum.

Nokkuð hefur verið deilt um þá framsetningu með vísan í lög um meðferð sakamála þar sem kveðið er á um að vitni skuli ekki hlýða á framburð vitna í sama máli. Það hefur verið afgreitt í gegnum tíðina með því að vitni skuli ekki vera viðstödd meðan skýrsla er tekin af ákærða eða öðrum vitnum. Með tækniframförum og tilkomu netsins hefur þetta hins vegar breyst þannig að beinar lýsingar hafa stundum verið úr dómsal. Þetta átti meðal annars við um mörg hrunmálanna og einnig landsdómsmálið.

Dómarar í málinu tóku ákvörðun um að fréttaflutningur af málinu skyldi takmarkaður þannig að ekki mætti skrifa frá réttarhöldunum meðan skýrslutökur fara fram. Hins vegar verður fjölmiðlum leyft að sitja réttarhöldin og skrifa um skýrslutökurnar eftir að þeim er lokið sem og frá málflutningi meðan hann stendur yfir.

Meðal vitna sem leidd verða fyrir dóminn eru sérfræðingur um myndbandsupptökur, sérfræðingur sem útbjó þrívíddargreiningu á myndefni sem tekið var við golfskála GKG, auk þess sem tveir skipverjar af Polar Nanoq munu bera vitni símleiðis. Þá mun lögreglumaður bera vitni sem gerði nýja mælingu á þeirri vegalengd sem Thomas er talinn hafa keyrt með Birnu.

Blaðamaður mbl.is verður á staðnum í dag og verða fluttar fréttir af málinu þegar skýrslutökum lýkur.

mbl.is