Breytir engu í framburði sínum

Thomas Møller Olsen kom fyrir Landsrétt í morgun og staðfesti …
Thomas Møller Olsen kom fyrir Landsrétt í morgun og staðfesti þar þann framburð sem hann veitti fyrir dómi í héraði. mbl.is/Árni Sæberg

Thomas Møller Olsen kom fyrir Landsrétt í morgun og staðfesti þar þann framburð sem hann veitti fyrir dómi í héraði. Hann sagðist engu vilja bæta við, né breyta. Björgvin Jónsson, skipaður verjandi Thomasar, rakti framburð hann í meginatriðum og jánkaði sakborningurinn því að sá framburður sem verjandi hans þuldi upp og dómtúlkur snaraði af íslensku yfir á grænlensku, stæðist.

Sem kunnugt er var Thomas dæmdur í nítján ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur 14. janúar í fyrra og fyrir stórfellt fíkniefnabrot. Við aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjaness bar sakborningurinn upp allt annan framburð en þann sem hann hafði haldið sig við í a.m.k. átta skýrslutökum hjá lögreglu og gerði tilraun til þess að koma sök á skipsfélaga sinn af grænlenska fiskiskipinu Polar Nanoq, Nikolaj W. Herluf Olsen.

Sakborningurinn gerði enga tilraun til þess að hylja andlit sitt er hann kom fyrir dóminn í morgun, en það gerði hann við aðalmeðferð málsins í héraðsdómi. Ljósmyndurum var þó gert erfitt um vik að ná af honum myndum hér í morgun, dómverðir reyndu að skyggja á þá, auk þess sem svört tjöld voru notuð í því skyni.

Þá er sá háttur á að ekki hefur mátt greina frá skýrslutökum í málinu „í beinni“ eins og tíðkast hefur að gera í mörgum umtöluðum dómsmálum undanfarin ár. En nú er skýrslutökum lokið og hér að neðan má fræðast um það sem fram fór í dómsal nr. 2 í Landsrétti á Kársnesi í dag.

Olsen sá eini sem veit hvert bílnum var ekið

Leifur Halldórsson rannsóknarlögreglumaður kom fyrir Landsrétt, en fyrir Héraðsdómi Reykjaness fjallaði hann um akstur rauða Kia Rio-bílaleigubílsins sem Thomas Møller Olsen var með á leigu. Hann greindi frá athugun lögreglu, sem sýndi fram á að einungis væri búið að gera grein fyrir um 130 kílómetrum af þeim alls 319 kílómetrum sem bílaleigubílnum var ekið þann tíma sem Thomas var með hann á leigu. Því væru 190 kílómetrar enn útskýrðir.

Fyrir héraðsdómi kom fram að óútskýrður akstur bílsins hefði verið að minnsta kosti 140-150 kílómetrar, en nýtt mat lögreglu sýndi að ekki hefur verið gerð grein fyrir um 190 kílómetrum.

„Það var algjör ágiskun á minni hálfu á þeim tíma. 319 kílómetrar er óumdeilt, en hitt verður alltaf ágiskun þar sem ákærði kaus að greina ekki frá því hvernig hann hefði notað bílinn,“ sagði Leifur.

Björgunarsveitarfólk leitar í fjörum nærri Selvogsvita í febrúar í fyrra, …
Björgunarsveitarfólk leitar í fjörum nærri Selvogsvita í febrúar í fyrra, eftir að líkami Birnu fannst á svæðinu. mbl.is/Eggert

Björgvin Jónsson verjandi Thomasar spurði hvort kannað hefði verið í síma Thomasar  hvort hann hefði notað Google Maps eða álíka forrit til þess að velja skemmstu leið á milli staða. Gengið var út frá því í mati lögreglu að stysta leið hefði verið farin, á þá staði sem vitað er að bílnum var ekið.

Leifur sagði að það hefði ekki verið kannað, en að það myndi ekki breyta heildarniðurstöðu  matsins, nema ef til vill um 10-15 kílómetra, þar sem ekki skipti miklu hvort t.d. farið sé um Reykjavíkurveg og Hringbraut eða Reykjanesbraut og Sæbraut á leiðinni fá Hafnarfjarðarhöfn og niður í miðborg Reykjavíkur.

„Það er mitt mat að það muni það litlu að þetta sé ekki neitt sem skiptir máli í raun, 10-15 kílómetrar. Síðan sitjum við, ég og þú Björgvin, og fabúlerum um það hvert bílnum var ekið á þessum tíma á meðan að ákærði situr þarna og hann er sá eini sem veit það,“ sagði Leifur.

Enginn þrýstingur frá lögreglu við skýrslutökur

Verjandi Thomasar spurði Leif út í ásakanir sakborningsins á hendur lögreglu, sem Thomas segir að hafi verið vond við sig og andstyggileg í orðavali, auk þess að beita sig þrýstingi  við skýrslutökur er hann sat í gæsluvarðhaldi. Þessar ásakanir komu fram í framburði Thomasar fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Hann segir …
Thomas Møller Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Hann segir lögregluna hafa verið vonda við sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Því vísaði Leifur á bug og sagði að verjandi Thomasar fyrir héraðsdómi hefði aldrei talað um um þetta og þó hefði hann verið viðstaddur allar skýrslutökurnar. Þá væri myndbandsupptökukerfi á fangaganginum og að það hefði verið hægur leikur að kalla eftir þeim gögnum, ef ákærði teldi að á sér hefði verið brotið.

Hann sagði þó að vissulega hefði Thomas verið vakinn og færður til rannsóknar hjá tæknideild og lækni skömmu eftir handtöku og svo vakinn á ný tvívegis þá sömu nótt til að fara í skýrslutöku.

„Vissulega er verið að gera honum ónæði, en svona var þetta bara og tilheyrði rannsókn málsins,“ sagði Leifur.

Líklega varpað af Óseyrarbrú

Jón Ólafsson, dómkvaddur haffræðingur í málinu, kom fyrir dóminn og greindi frá þeim niðurstöðum sínum að líkama Birnu hefði líklegast verið varpað í Ölfusá af Óseyrarbrú, en rek í hafinu var til vesturs. Aðrir staðir á milli Þorlákshafnar og Selvogsvita væru illa aðgengilegir nema vel búnum bílum.

Aðgengi væri hins vegar gott frá höfninni í Þorlákshöfn, en það kæmi ekki heim og saman við ástand líkamans, sem gæfi til kynna að hann hefði borist langt frá landi – líklegast með útrennsli Ölfusár til hafs.

Fjallað um þrívíddargreiningu

Fyrir dóminn kom Almar Ingason, sem annaðist myndvinnslu á myndefni úr eftirlitsmyndavélum fyrir lögregluna, alls um 35 mínútna langt myndband. Hann var fenginn á staðinn sem vitni ákæruvaldsins, vegna þrívíddargreiningar, sem verjandi lét vinna upp úr myndefni frá golfskála GKG í Hnoðraholti.

Pétur Karlsson, sem vann þrívíddargreininguna á myndskeiðinu, kom einnig fyrir dóminn. Í þrívíddargreiningunni virðist einungis einn bílstjóri en enginn farþegi vera í Kia Rio-bifreiðinni er hún keyrir framhjá golfskála GKG í Hnoðraholti þessa nótt.

Samkvæmt greiningunni lítur bílstjórinn út fyrir að vera 172 sentimetrar á hæð, sé gert ráð fyrir því að hann sé með sætið í venjulegri stöðu. Thomas er töluvert hærri.

Greiningin var hún lögð fyrir Landsrétt af hálfu verjanda, þrátt fyrir mótbárur Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara við undirbúningsþinghald í þessu máli. Hún sagði að myndbandsupptakan sem greiningin byggir á væri of óskýr til þess að þetta gagn myndi skila einhverju. Dómari ákvað þó að heimila notkun þess.

Að mati vitnisins Almars sást ekki allt það í þessari þrívíddarendurgerð af myndefninu frá Hnoðraholti, sem hann taldi sig koma auga á við samantekt myndbandanna fyrir lögreglu. Hann sagði til dæmis að hann teldi að farþegasæti bílsins hefði verið hallað aftur og að þar mótaði fyrir formi, sem gæti mögulega verið höfuð liggjandi manneskju. Þetta virðist ekki sjást í þrívíddargreiningunni.

Þá sagði Almar að frá ákveðnu sjónarhorni, aftan á bílinn, mótaði fyrir spenntu öryggisbelti í farþegasætinu, striki sem færi skáhallt niður. Ekki er gert ráð fyrir því í þrívíddargreiningu verjandans.

Pétur, sá sem vann þrívíddargreininguna, sagði að það gæti verið hugsast að þarna sæist í öryggisbelti, er hann sá stillimynd úr myndskeiðinu og gaf raunar aðra fyrirvara við þær niðurstöður sem þarna voru settar fram, m.a. það að erfitt væri að áætla hallann á farþegasætinu.

Ríkissaksóknari spurði Almar einnig út í það hvort eðlileg útskýring gæti verið á því að á upptökum úr svarthvítum eftirlitsmyndavélum frá English Pub í miðborg Reykjavíkur virtist Nikolaj W. Herluf Olsen vera klæddur í ljósan fatnað, en á upptökum frá Hafnarfjarðarhöfn sé hann í dökkri peysu.

Svo sagði Almar vera, þar sem eftirlitsmyndavélar sem þessar notist við innfrarautt ljós. Þá sé það ekki liturinn sem skipti máli, heldur endurvarpið.

Framburður Thomasar rakinn

Samkvæmt framburði Thomasar fyrir héraðsdómi, sem stangaðist bæði á við rannsóknargögn lögreglu og framburð annarra vitna í flestum meginatriðum, á Nikolaj að hafa beðið hann um að sækja sig niður í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 14. janúar í fyrra, en þangað hafi Thomas áður skutlað honum, frá Hafnarfjarðarhöfn þar sem Polar Nanoq var við bryggju. Eftir að hafa farið á tvo skemmtistaði, þar sem Nikolaj hafi verið ölvaður og vinalegur við kvenfólk, hafi þeir haldið í bílaleigubílinn og farið að rúnta um miðborgina.

Skyndilega hafi svo komið stúlka inn í bílinn hjá þeim. Hún hafi talað íslensku og Nikolaj félagi hans hafi talað við hana á ensku. Henni hafi verið gerð grein fyrir því að hún væri ekki um borð í leigubíl, en síðan hafi þeir ákveðið að keyra stúlkunni heim. Hún hafi svo sofnað þegar ekið var áleiðis til Hafnarfjarðar.

Þá hafi Nikolaj gefið Thomasi til kynna að hann vildi fá að keyra bílinn og eiga stund með stúlkunni einslega. Thomas hafi í framhaldinu stöðvað bílinn og stigið út til að kasta af sér vatni. Þá hafi Nikolaj keyrt í burtu á bílnum, með farsíma Thomasar meðferðis. Dágóðri stund síðar hafi Nikolaj svo komið til baka, verið orðinn einn í bílnum og sagt að stúlkan hefði ákveðið að ganga síðasta spölinn heim.

Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í ágúst í fyrra. Thomas …
Nikolaj Olsen í Héraðsdómi Reykjaness í ágúst í fyrra. Thomas hefur reynt að koma sök í málinu yfir á skipsfélaga sinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari spurði Thomas út í það hversu langur tími hefði liðið frá því að Nikolaj fór á bílnum og þar til hann sneri aftur og hvað Thomas hefði verið að gera á meðan. Thomas svaraði því til að hann vissi ekki hversu langur tími hefði liðið, en að hann hefði verið að horfa á stjörnurnar. Sigríður hann þá að því hvort hann hefði virkilega séð stjörnur, þar sem skýjað hefði verið þessa nótt. Thomas svaraði því játandi.

Er Nikolaj sneri til baka virtist hann taugaóstyrkur, samkvæmt Thomasi, en þeir hafi svo ekið að Hafnarfjarðarhöfn og Nikolaj farið um borð í fiskiskipið. Þá hafi Thomas hins vegar haft samband við ónafngreindan aðila vegna pakka sem hann kom með sér frá Danmörku og farið að hitta mann vegna þessa pakka. Það hafi hann verið að gera frá um kl. 7 um morguninn og þar til kl. 11:05, þegar hann kom aftur á bílaleigubílnum að Hafnarfjarðarhöfn, en Thomas hefur ekkert viljað gefa upp um ferðir sínar á þeim tíma.

Síðan segist Thomas hafa þrifið bílaleigubílinn, þar sem hann hafi tekið eftir ælubletti í aftursætinu og viljað skila honum hreinum. Thomas segist ekki hafa orðið var við að blóð hafi verið í bílnum. Thomas útskýrði klórför, sem hann var með á bringunni og sáust við læknisskoðun 19. janúar, með því að hann klóraði sér mikið í svefni.

mbl.is