Samræðan er leiðin áfram

„Samgönguráðherra hefur sent mér skilaboð þess efnis að hann vilji hitta okkur og fara yfir stöðuna, ræða saman,“ segir Ísak Ernir Kristinsson, einn talsmanna Stopp, hingað og ekki lengra. Ísak hefur mótmælt hugmyndum annarra í hópnum um að loka Reykjanesbraut til að knýja á um úrbætur í kjölfar banaslyss þar á sunnudag. 

„Ég skil fólk sem er orðið langþreytt og upplifir það að ekkert gerist,“ segir Ísak en aðrir í hópnum boðuðu aðgerðir í vikunni þar sem Reykjanesbrautinni yrði lokað tímabundið í mótmælaskyni við tafir á tvöföldun brautarinnar á kaflanum á milli Kaldár­sels­veg­ar og mis­lægra gatna­móta við Krýsu­vík­ur­veg.

Ísak segir hins vegar að þrátt fyrir allt hafi mestu umbæturnar á veginum náðst með samtali og samvinnu við stjórnvöld. Hann bendir á að náðst hafi að flýta framkvæmdum við Vellina þar sem mislæg gatnamót voru tekin í notkun í fyrra og að tvöföldun þar hafi einnig verið flýtt þótt framkvæmdir séu ekki hafnar. „Kaflinn fyrir sunnan, við Reykjanesbæ, er kominn á samgönguáætlun, hann var ekki þar áður,“ segir Ísak. Núna þurfi að ýta brýnustu verkefnunum, eins og tvöfölduninni Hafnarfjarðarmegin, framar í forgangsröðina.

Fram undan séu fundir með samgönguráðherra, fulltrúum frá samgöngunefnd þingsins og sveitarstjórnarfólki þar sem farið verði yfir stöðuna.  

mbl.is