Ekki töff að nýta sér neyð fólks

Ólafía Hrönn Jónsdóttir á Húsnæðisþingi í dag.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir á Húsnæðisþingi í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ótrúlega sorglegt að við þurfum að halda húsnæðisþing hér á landi. Verður einhvern tímann haldin svipuð ráðstefna í tengslum við súrefni? Þessari spurningu varpaði leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir fram á húsnæðisþingi í dag.

Ólafía kannaði fátækt áður en hún hóf að leika í sýningunni Álfahöllinni og spurði sig hvort það væri virkilega til fátækt á Íslandi. Hún sagðist ekki hafa þurft að leita lengi til að finna fátæktina. Í Álfahöllinni er stiklað á stóru yfir 67 ára sögu Þjóðleikhússins en í seinni hluta verksins fer verkið að hverfast um fátækt á Íslandi.

„Húsnæðismarkaðurinn er stór hluti ástæðunnar. Það verða allir að hafa húsnæði,“ sagði Ólafía og hélt áfram: „Sumum má líkja við þræla; fólk hefur mat og húsnæði en ekki rassgat meira. Sumir hafa það verra en þrælar og eiga ekki fyrir mat í lok mánaða.“

Einstæð þriggja barna móðir gafst upp

Hún sagði að þeir sem ráði hugsi að svona hafi þetta alltaf verið og verði alltaf. Fólk kunni einfaldlega ekki að bjarga sér.

Hún sagði dæmisögu af konu sem hún þekkir, einstæðri 38 ára þriggja barna móður. Konan vinnur 110% vinnu sem sjúkraliði og byrjaði að leigja þegar hún skildi í kjölfar þess að hún og maðurinn hennar misstu húsnæði í hruninu.

Leigusamningur var alltaf gerður til eins árs í senn og hún borgaði 220 þúsund krónur á mánuði í byrjun. Leigan hefur hins vegar hækkað jafnt og þétt og í lokin var hún 285 þúsund krónur og þá átti eftir að greiða fyrir rafmagn.

„Hún gafst upp. Þegar búið var að borga það sem átti að borga átti hún eftir 40 þúsund. Kona sem vinnur og vinnur og vinnur getur ekki fætt börnin sín,“ sagði Ólafía.

Hún sagði að konan hefði ekkert fjárhagslegt bakland. Núna gistir hún á sófanum hjá vinkonu sinni og börnin dvelja hjá föður sínum.

Er ekki hægt að finna annan stað fyrir peningana?

„Það eru engar reglur á leigumarkaði. Þú leigir bara á það sem þú vilt eða getur,“ sagði Ólafía. Hún sagði að stóru leigufélögin væru fjárfestingarfyrirtæki sem verði að skila arði. „Við erum að tala um heimili fólks og mér finnst þetta svo vond hugmynd. Er ekki hægt að finna einhvern annan stað fyrir peningana?“

Hún sagðist ekki vita hvort stjórnvöld hafi sofið á verðinum eða hvort þeim þyki þetta í lagi. „Mikil hækkun húsnæðisverðs er jákvæð fyrir þá sem eiga peninga og þá sem selja og yfirgefa landið og koma aldrei aftur.“

Ólafía sagðist halda að hér á landi væri braskað alveg stjórnlaust með fasteignir. „Stjórnvöld eru búin að vinna aðeins of lengi einungis fyrir peningaheiminn. Þið sem stjórnið verðið að fara að grípa í taumana og gera fólki kleift að búa í öruggu húsnæði og eiga eitthvert líf.“

Hún spurði hvernig fólk ætti að kaupa sína fyrstu íbúð í dag. „Eigum við að láta fasteignaverð hrynja?“ spurði Ólafía og bætti við að vonandi yrði hún ekki skotin fyrir þessi ummæli.

Ég veit að peningarnir verða að vera einhvers staðar en það má ekki nýta sér neyð fólks. Það er ekki töff.

Hún sagðist ekki vera að tala um sjálfa sig eða börnin sín í þessu samhengi; þau hefðu skjól. „Ég er bara manneskja sem er ekki sama.“

Ólafía Hrönn Jónsdóttir í hlutverki sínu í Álfahöllinni.
Ólafía Hrönn Jónsdóttir í hlutverki sínu í Álfahöllinni. Ljósmynd/Hörður Sveinsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert