Oft erfitt að komast úr foreldrahúsum

Elísabet Brynjarsdóttir, forseti stúdentaráðs.
Elísabet Brynjarsdóttir, forseti stúdentaráðs. Ljósmynd/Stúdentaráð

Fólki á biðlista eftir íbúð hjá Félagsstofnun stúdenta hefur fækkað undanfarin ár en þó voru 729 einstaklingar á biðlista eftir íbúð þegar úthlutun lauk í haust. Elísabet Brynjarsdóttir, forseti stúdentaráðs HÍ, segir stúdentaíbúðir mikilvægan valkost og oft fyrsta skrefið úr foreldrahúsum.

Byggingafélag námsmanna er með 469 íbúðir í boði í Reykjavík fyrir stúdenta og Félagsstofnun stúdenta er með 1.200 íbúðir. Elísabet segir að stúdentaíbúðir snúist um meira en bara þak yfir höfuðið.

„Á Stúdentagörðum FS er hugmyndafræði þar sem reynt er að sporna gegn félagslegri einangrun með opnum rýmum. Sömuleiðis er mikilvægt að byggja upp háskólasamfélag í návist við háskólann og aðra mikilvæga þjónustu, á viðráðanlegu verði,“ sagði Elísabet.

Hún benti á að FS þjónusti um 10% nemenda en markmiðið sé að ná því upp í 15%. Fólki af landsbyggðinni og alþjóðlegum nemendum er tryggður forgangur að íbúðum en í því samhengi má nefna að í fyrra komu 1.800 nemendur erlendis frá í Háskóla Íslands.

Segir mikilvægt að byggja fleiri stúdentaíbúðir

„Eftir standa þá stúdentar á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa að komast úr foreldrahúsum,“ sagði Elísabet. Hún sagði enn fremur að húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu hefði ekki náð að þróast þannig að framboð sé nægjanlegt fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref, hvort sem það vill leigja eða kaupa.

„Langir biðlistar gefa til kynna að innkoma á almennan leigumarkað sé stúdentum gríðarlega erfið, bæði vegna skorts á framboði og verðlags,“ sagði Elísabet og bætti við að vandinn væri uppsafnaður.

Hún sagði að það væri gríðarlega mikilvægt að byggja fleiri stúdentaíbúðir en nú er verið að byggja um 240 íbúðir við Sæmundargötu. Auk þess standi til að byggja íbúðir við reit Gamla Garðs.

Hún sagði að skrefið að fara úr stúdentaíbúð á almennan markað hefði reynst mörgum erfitt. Leiga á stúdentaíbúðum væri lág en til að mynda kostar einstaklingsíbúð rúmlega 88 þúsund og þá á eftir að draga frá húsaleigubætur.

Elísabet sagði að áherslur hennar kynslóðar væru aðrar en kynslóðar foreldra hennar. „Ungmenni vilja eyða peningum í upplifanir og ferðalög en minna í steypu,“ sagði Elísabet og lagði áherslu á að mikil þörf væri á öruggum leigumarkaði með framboði af litlum og ódýrum íbúðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert