Tekjulágir hafa setið eftir

Ólafur Heiðar Helgason.
Ólafur Heiðar Helgason. Ljósmynd/Íbúðalánasjóður

Húsnæði er grunnþörf og stærsta eign almennings. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinn kemur meðal annars fram að öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Þetta kom fram í máli Ólafs Heiðars Helgason, hagfræðings hjá Íbúðalánasjóði, á Húsnæðisþingi.

 „Er auðvelt að uppfylla þessi stóru fyrirheit eða er húsnæðismarkaðurinn eins og olíuskip; þar sem það tekur langan tíma að skipta um stefnu?“ spurði Ólafur.

Íbúðaverð hefur rokið upp

Hann sagði að það tæki langan tíma að byggja húsnæði og það tæki langan tíma að undirbúa byggingu. Það hefði tekið langan tíma að breyta um stefnu á húsnæðismarkaði. Ólafur benti á að fólksfjölgun hefði verið mikil undanfarin ár, 7% á árunum 2014-2017,og það ásamt lítilli uppbyggingu hefði skapað skort á íbúðum.

Einnig hefur íbúðaverð hækkað gríðarlega síðustu ár en það hefur hækkað 28% umfram ráðstöfunartekjur frá árinu 2012. Ólafur sagði að ástandið hefði verið verst árið 2016, þar sem fólk bauð oft hátt yfir ásettu verði án þess að hafa séð íbúðir. Ástandið hefði róast en verð væri þó enn hátt.

Ólafur benti á að á sama tímabili, frá 2012-2018, hefðu tekjulágir setið eftir á íbúðamarkaði. Tekjuháir ættu jafnmargar íbúðir núna og fyrir sex árum. Hins vegar ættu einungis 40% í tekjulægsta hópnum fasteign núna, en voru 60% fyrir sex árum.

Fjárhagslegt bakland skiptir máli

Hagfræðingurinn sagði að fjárhagslegt bakland ættingja og vina skipti miklu máli til að komast inn á íbúðamarkað. „Eldri kynslóðir segja að það hafi alltaf verið erfitt að komast inn á íbúðamarkað og þetta sé hálfgert væl í unga fólkinu,“ sagði Ólafur og bætti við að þetta væri einfaldlega ekki réttt. Samkvæmt hans gögnum hafa rétt tæp 60% fengið aðstoð við kaup á fyrstu fasteign frá árinu 2010. Á árunum 2000-2009 voru þau rúmlega 40% og áður færri.

Ólafur sagði að þrátt fyrir mikla uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár væri hún samt minni en það sem nemur uppbyggingarþörf. Samkvæmt Íbúðalánasjóði þarf að fjölga íbúðum um 2200 á ári til ársins 2040 til að mæta þörf. Við höfum verið undir því undanfarin ár og því hefði myndast skortur.

Ólafur benti að lokum á dýrar og stórar nýjar fasteignir með því að skoða nýbyggingar á fasteignavef mbl.is sem kosta minna en 30 milljónir. Þar fann hann eina íbúð á Rúv-reitnum sem kostar 28,5 milljónir. „Það er reyndar 35 fermetra stúdíóíbúð. Þetta sýnir kannski ástandið á fasteignamarkaðnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert