Eina svarið er að hætta viðskiptum við bankann

Frá Hofsósi.
Frá Hofsósi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Eina svarið sem við eigum við þessu er að taka út það sem við eigum í Arion banka og flytja í aðra peningastofnun. Ef við eigum að fara að keyra til Sauðárkróks til að taka út peninga skiptir ekki máli í hvorn bankann við förum,“ segir Einar Einarsson, fyrrverandi vinnuvélastjóri á Grund á Hofsósi. Margir íbúar þar og viðskiptavinir Arion banka eru óánægðir með þá ákvörðun bankans að fjarlægja eina hraðbankann á Hofsósi.

„Okkur finnst það afleitt að missa hraðbankann. Við lítum á hann sem sjálfsagða þjónustu og ákveðin mannréttindi. Ef hann fer þurfum við að aka 80 kílómetra til þess kannski að taka út fimmþúsundkall,“ segir Einar.

Leysa út lyf án posa

Hann nefnir sem dæmi að margir eldri borgarar þurfi að leysa út lyfin hjá heilsugæslunni með peningum því að ekki sé posi þar frá apótekinu á Sauðárkróki sem sendir lyfin. Þá greiði margir allt sem þeir kaupa í verslunum með peningum. „Þeir verða sennilega að láta keyra sig til Sauðárkróks og taka þá meira út en þeir þurfa á að halda dagsdaglega,“ segir Einar. Hann bætir því við að margir ferðamenn eigi þarna leið um á sumrin og þurfi peninga til að kaupa vörur og þjónustu.

Of lítil notkun

Búnaðarbankinn var með útibú á Hofsósi og síðan Kaupþing eftir sameininguna en því var lokað í árslok 2009. Síðar var hraðbanka komið upp og hann hefur verið þar síðan, þó ekki alveg stöðugt. Hann hefur verið í anddyri útibús verslunar KS síðustu árin.

Stjórnendur Arion banka hafa nú ákveðið að fjarlægja hraðbankann. Ekki var búið að því í gær, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Samkvæmt upplýsingum Haraldar Guðna Eiðssonar, uppýsingafulltrúa Arion banka, er bankinn stöðugt að skoða hvar sé best og hagkvæmast að hafa hraðbanka. Töluverður kostnaður fylgi rekstri hvers hraðbanka. Á Hofsósi hafi notkunin verið svo lítil að því miður hafi ekki borið sig að hafa hraðbanka þar.

Spurður um vandræði viðskiptavina, sérstaklega eldra fólks sem vant er að nota peninga í viðskiptum, segir Haraldur að bankinn bjóði upp á fjölbreyttar þjónustuleiðir og sé með nokkuð umfangsmikla starfsemi á Norðurlandi, m.a. á Sauðárkróki og Siglufirði. „Það eru alltaf erfiðar ákvarðanir að taka þegar verið er að draga úr þjónustu með þessum hætti, en við leggjum hins vegar ríka áherslu á þær fjölbreyttu og þægilegu þjónustuleiðir sem standa viðskiptavinum okkar til boða, hvort sem það eru greiðslukort eða appið og netbankinn,“ segir Haraldur Guðni.

Nauðsynlegur fyrir fólkið

Einar Einarsson telur það haldlítil rök sem hann heyrir frá Arion banka, að dýrt sé að reka hraðbankann. Hann sé engu að síður nauðsynlegur fyrir fólkið og einhver hraðbanki þurfi að vera minnst notaður í landinu. Ekki geti verið mikill kostnaður við að reka bankann. Hann segir að ákvörðun um að taka hraðbankann sé í andstöðu við útibússtjóra Arion banka á Sauðárkróki en hann hafi lengi reynt að halda þessari þjónustu.

Sveitarfélagið óskar eftir fundi

Á fundi byggðaráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar í gær var samþykkt að óska eftir fundi með forsvarsmönnum Arion banka til að ræða starfsemi bankans í Skagafirði.

„Byggðarráð harmar þá ákvörðun Arion-banka að fjarlægja hraðbanka frá Hofsósi enda gegnir hann mikilvægu hlutverki fyrir íbúa og gesti svæðisins, ekki síst eldra fólk, og er eini hraðbankinn í austanverðum í Skagafirði," segir í bókun byggðaráðs frá í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert