Grunur um að tveir hafi verið í húsinu

Grunur er um að karl og kona hafi verið á efri hæð einbýlishúss við Kirkjuveg á Selfossi þegar mikill eldur kviknaði þar rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri hjá Brunavörnum Árnesinga, segir það þó ekki hafa verið staðfest, en slökkvistarf miðist við að þessir einstaklingar hafi verið inni í húsinu.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram húsráðandi og gestkomandi kona séu í haldi lögreglu vegna rannsóknar á eldsupptökum.

„Það er mjög erfitt fyrir okkur að athafna okkur við leit, þá sérstaklega á efri hæðinni. Húsið var alelda þegar við komum á vettvang. Þá var eldur og reykur út um alla glugga þannig að það var einn eldhnöttur þegar við komum,“ segir Pétur í samtali við mbl.is, en slökkvistarf stendur enn yfir.

„Það er búið að slökkva allan eld en verið er að vinna í glæðum. Það sem gerir okkur erfitt fyrir er að húsið er orðið það veikt að innan að slökkviliðsmenn og reykkafarar geta illa athafnað sig á efri hæð hússins vegna hættu á þeir falli á milli hæða. Þetta þarf því að vinnast hægt og rólega.“

mbl.is/​Hari

Hann segir unnið að því að rjúfa þak á ýmsum stöðum til að komast betur að efri hæðinni, en mikil vinna sé eftir við að slökkva í glæðum. „Þetta er gamalt hús, frá 1950. Það er oft erfiðara að eiga við einangrun í þeim heldur en nýrri húsum. Við teljum að það hafi verið asbest í þakinu þannig við höfum verið með stórar vatnsbyssur til að minnka reykinn, en það berst auðvitað alltaf einhver reykur þannig það þarf að fara varlega.“

Á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi segir að sérfræðingar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi verið kallaðir til aðstoðar við rannsókn málsins. Þar kemur jafnframt fram að vettvangur verði lokaður óviðkomandi eftir að slökkvistarfi lýkur vegna vettvangsrannsóknar. 

Myndskeiðið af brunanum sem fylgir fréttinni var tekið af vegfaranda á Selfossi fyrr í dag.

mbl.is/​Hari
mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert