Nær ekki utan um slagorðið menntun til launa

Drífa Snædal tók nýlega við sem forseti ASÍ.
Drífa Snædal tók nýlega við sem forseti ASÍ. mbl.is/Valli

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sagðist ekki alltaf ná utan um kröfuna um „menntun til launa.“ Orðin féllu í pallborðsumræðum eftir kynningu þjóðhagsspár hagfræðideildar Landsbankans í Hörpu í dag. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra svaraði og sagði að ljósmæður gætu svarað því. Vöktu þessi orðskipti undrun fundargesta.

Spurt var hvort hægt yrði að halda sátt milli launahópa um krónutöluhækkun. „Við erum að leita leiða til þess að fólk geti lifað af launum sínum. Við viljum ekki endilega að fitulagið fái mest,“ sagði Drífa.

Þegar kom að Bjarna lýsti hann hvernig honum hafi fundist verkalýðshreyfingin sundruð í sinni kröfugerð í kjaraviðræðum árið 2015. Þá hafi verið ríkjandi orðræða um að hækka lægstu launin, en síðan bættist við hávær krafa um að meta meðal annars menntun og reynslu til launa. Benti hann á að hópar með hærri tekjur hefðu fengið verulega kauphækkun.

„Þetta slagorð að meta menntun til launa, ég næ ekkert alltaf utan um það slagorð. Ég veit ekki hvað það þýðir. Það eru ýmsir sem eru með allskonar útgáfur af því,“ sagði Drífa. „Ég held að ljósmæður gætu svarað því hvað þær eiga við þegar þær segja metum menntun til launa,“ svaraði Bjarni.

Kjaramálin voru til umræðu í pallborði á fundi Landsbankans um …
Kjaramálin voru til umræðu í pallborði á fundi Landsbankans um þjóðhagsspá í dag. mbl.is/Gunnlaugur Snær Ólafsson

Kyrrstöðusamningar bestir

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Landsbankanum, stýrði umræðum og spurði hvort hægt yrði að mynda sátt um 2% kaupmáttaraukningu. Drífa sagði það fara eftir því hvernig kaupmáttaraukningin skiptist og vísaði til fyrri orða sinna um að mikilvægt væri að tryggja afkomu tekjulægstu hópanna.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagðist ekki hafa kostnaðargreint kröfur um talverða hækkun lægstu launa, að vinnuvikan verði stytt um einn dag, að 80% vaktavinna skilgreinist sem fullt starf og að hækka skattleysismörk verulega, en augljóst væri að það að verða við öllum kröfunum væri kostnaðarsamt.

„Besta leiðin er kyrrstöðusamningar þar sem við leyfum atvinnulífinu að ná styrk á ný,“ sagði Halldór Benjamín.

Drífa benti á að kostnaðargreiningar verði að ná til fjölþættari þátta samfélagsins og spurði hvað það kostar samfélagið að fólk nái ekki endum saman, að það búi við ekki við öruggt húsnæði, að foreldrar geti ekki sent börn sín í tómstundir.

Tókust á um spár

Í upphafi umræðna sagði Drífa að spár fyrir kjaraviðræðurnar 2015 hefðu sýnt 9% stýrivexti og 6% verðbólgu og að þær hefðu ekki gengið eftir. Dró hún þá ályktun að hugsanlega væri hagvöxturinn drifinn áfram af einkaneyslu í meiri mæli en gert var ráð fyrir og sagði að launahækkanir nú gætu orðið hagkerfinu að góðu.

Þessu var mótmælt af Halldóri Benjamín, sem sagði að verðbólguáhrif launahækkana 2015 hefðu ekki orðið vegna hagstæðra ytri aðstæðna sem ekki var gert ráð fyrir. Þá hafi meðal annars útflutningsverð verið hátt og olíuverð lágt, sem skapaði innistæðu fyrir launahækkunum. „Nú er þetta öfugt,“ bætti hann við.

Þétt var setið á fundi Landsbankans í dag.
Þétt var setið á fundi Landsbankans í dag. mbl.is/Gunnlaugur Snær Ólafsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert