Rússíbani fyrir viðkvæma rithöfundarsál

Mette-Marit krónprinsessa Noregs afhendir Auði Övu verðlaunagripinn í Ósló í …
Mette-Marit krónprinsessa Noregs afhendir Auði Övu verðlaunagripinn í Ósló í gærkvöldi. Johann­es Jans­son/norden

Auður Ava Ólafsdóttir hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina Ör, sem kom út hér á landi fyrir um tveimur árum síðan, en er nýlega komin út í norrænum þýðingum. Hún segir að það verði fínt að koma heim í hversdagsleikann síðar í dag, enda hafi nokkuð tilstand og álag fylgt verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í Ósló í gærkvöldi.

„Þetta er talsverður rússíbaní fyrir svona viðkvæmar sálir eins og okkar rithöfunda, við erum ekkert voðalega sviðsvæn eða sjónvarpsvæn,“ segir Auður Ava við blaðamann, símleiðis frá Gardermoen-flugvelli í Ósló.

„Ég er voða ánægð, ekki síst vegna útgefenda minna á Norðurlöndum,  af því að þetta er basl og þetta eru lítil forlög. Ég er enginn „best seller“ – þannig – en þetta hjálpar þeim kannski örlítið,“ segir Auður Ava.

Verðlaun Norðurlandaráðs eru Auði Övu einnig hvatning inn í sitt nýja líf sem atvinnurithöfundur, en hún lét af störfum sem lektor í listfræði við Háskóla Íslands í byrjun sumars og hyggst nú einbeita sér að fullu að ritstörfum.

Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur.
Ör eftir Auði Övu Ólafsdóttur.

Í ræðu sinni í gærkvöldi þakkaði Auður þýðendum bóka sinna sérstaklega fyrir að taka þátt í því að byggja brýr á milli fólks með hjálp tungumálsins.

„Eitt af svona því besta og óvæntasta við að vera höfundur sem þýddur er á útlensku er að hafa fengið að kynnast þessu frábæra fólki sem þýðendur eru og mér fannst bara rétt að minna á það, að þeir eru að skrifa bækurnar okkar á sínu tungumáli. Þetta eru illa launuð störf að vera þýðandi, en auðvitað mjög mikilvæg og sérstaklega fyrir svona fámennistungumál eins og okkar,“ segir Auður Ava.

Kvöld nýlendanna í Ósló

Vestnorrænu þjóðirnar voru sigursælar á verðlaunahátíð Norðurlandaráðs í gærkvöldi og fór það svo að þrjár fjölmennustu þjóðirnar, Danir, Svíar og Finnar héldu heim án þess að fá nokkur verðlaun á meðan að Íslendingar taka tvö með sér heim í dag og Færeyingar, Norðmenn og Grænlendingar ein.

 „Þetta var jaðarinn, gömlu nýlendurnar eða núverandi,“ segir Auður, augljóslega sátt með yfir ríkulega uppskeru smærri þjóðanna á þessum samnorræna vettvangi.

Auður Ava í Ósló í gærkvöldi.
Auður Ava í Ósló í gærkvöldi. Johann­es Jans­son/norden

Hún hefur kynnst rithöfundahópnum sem var tilnefndur ásamt henni og segir hann góðan. „Við höfum kynnst á síðustu mánuðum, lesið upp saman og þetta eru ofboðslega flottir höfundar og hefðu í rauninni verið margir kallaðir,“ segir Auður Ava og bætir við að öll eigi þau það sameiginlegt, eðli málsins samkvæmt, að vera tilnefnd til verðlauna mun oftar en þau vinni.

„Við höfum miklu oftar ekki fengið neitt. Maður er vanari að vera í því og þá er maður oftast bara heima í náttfötunum að horfa á Barnaby og borða poppkorn.“

Ör og Ungfrú Ísland

Skáldsagan Ör kom út árið 2016 hér á landi og á þessu ári í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Bókin hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin á útgáfuárinu og enn er verið að þýða hana yfir á ýmis tungumál og segir Auður að hún telji þau vera um tíu í heildina. Bókin kom til dæmis út á ítölsku í vor og var tilnefnd til virtustu bókmenntaverðlaunanna þar í landi á þessu ári.

Nú er Auður Ava þó farin að hugsa um útgáfu næstu bókar sinnar, sem áætluð er í lok næstu viku. Sú bók ber heitið Ungfrú Ísland og fyrsti opinberi upplestur bókarinnar verður í fjósi í Dölunum, nánar tiltekið fyrir framan 140 nautgripi í Rjómabúinu á Erpsstöðum í Dalasýslu.

Það er í grennd við heimaslóðir aðalsöguhetjunnar, ungrar skáldkonu úr Dölunum, sem boðið er að taka þátt í fegurðarsamkeppninni Ungfrú Ísland árið 1963.

„Ég er að fjalla um þá tíma þegar karlmenn fæðast skáld og konum er boðið að vera Ungfrú Ísland,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir, handhafi Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert