Farið fram á vikulangt gæsluvarðhald

Tvennt lést í brunanum á Selfossi í gær.
Tvennt lést í brunanum á Selfossi í gær. mbl.is/Eggert

Búið er að yfireyra báða einstaklingana sem handteknir voru vegna brunans á Kirkjuvegi á Selfossi í gær. Um er að ræða húsráðanda og gestkomandi konu. Lögregla hefur gert kröfu fyrir Héraðsdómi Suðurlands um að þau sæti hvort um sig gæsluvarðhaldi í viku vegna rannsóknarhagsmuna.

Fólkið var leitt fyrir dómara í sitthvoru lagi, en Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir dómara hafa tekið sér frest til kvölds til að kveða upp úrskurð, að minnsta kosti í fyrri fyrirtökunni. Það lá ekki fyrir þegar mbl.is náði tali af honum rétt fyrir klukkan fjögur hvort sami hátturinn yrði á með seinni fyrirtökuna. Það væri þó líklegt.

Oddur vill lítið gefa upp hvað kom fram við yfirheyrslur yfir fólkinu í dag eða hvort atburðarásin hafi skýrst. „Við ætlum að halda spilunum þétt að okkur með þær upplýsingar og almennt einstök atriði rannsóknarinnar.“

Fram hefur þó komið að lögregla telji rökstuddan grun um að eldsupptök í einbýlishúsinu á Kirkjuvegi hafi verið af mannavöldum, en tvennt lést í brunanum. Aðspurður hvort talið sé að eldurinn hafi verið kveiktur af ásetningi segir Oddur: „Það er til rannsóknar hvort það er ásetningur eða gáleysi.“

Rannsókn á vettvangi lauk um þrjúleytið og hefur húsið nú verið afhent tryggingafélagi til vinnslu. „Úrvinnsla úr þeim gögnum sem var aflað tekur hins vegar lengri tíma,“ segir Oddur.

mbl.is