Flugvél WOW air snúið við

Hættustigi var lýst yfir á flugvellinum og voru tugir björgunarsveitarmanna …
Hættustigi var lýst yfir á flugvellinum og voru tugir björgunarsveitarmanna á Suðurnesjum og af höfuðborgarsvæðinu í viðbragðsstöðu.

Vélarbilun kom upp í flugvél WOW air sem var á leið til Baltimore í Bandaríkjunum skömmu eftir flugtak nú síðdegis. Vélarbilunin var smávægileg en flugstjóri ákvað að snúa við til Keflavíkur af öryggisástæðum áður en haldið yrði yfir hafið, að því er segir í tilkynningu frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa flugfélagsins.

Flugvirkjar munu skoða vélina áður en hún heldur áfram för sinni til Bandaríkjanna, en farþegar verða upplýstir um gang mála með tölvupósti og smáskilaboðum.

Hættustigi var lýst yfir á flugvellinum og voru tugir björgunarsveitarmanna á Suðurnesjum og af höfuðborgarsvæðinu í viðbragðsstöðu. Hættustigi var aflýst um leið og flugvélinni var lent heilu á höldnu og var útkall björgunarsveita afturkallað, samkvæmt upplýsingum frá Isavia og Landsbjörg.

Uppfært kl. 17:39:

Tíu sjúkrabílar frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu voru sendir af stað og voru þeir tiltækir til móts við álverið, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert