Börnunum þykir gott að fá símalausan dag

Erna segir mikilvægt að foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir börnin …
Erna segir mikilvægt að foreldrar séu góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín og kenni þeim að tækin stjórni þeim ekki. Thinkstock/iStockphoto

Næstkomandi sunnudag, 4. nóvember, standa Barnaheill fyrir símalausa sunnudeginum annað árið í röð. Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla, segir viðtökurnar hafa verið svo góðar á síðasta ári að ákveðið hafi verið að endurtaka leikinn.

„Við vorum svolítið að renna blint í sjóinn með að prófa þetta fyrir ári síðan, en það var svo greinilegt að fólki fannst þetta gott framtak, ekki síst börnunum. Það voru margir sem sögðu að börnunum hefði þótt frábært að fá svona dag,“ segir Erna í samtali við mbl.is.

„Það segir okkur að við þurfum að vera vakandi fyrir því að við séum ekki að láta þessi snjalltæki hafa of mikil áhrif á samskiptin okkar,“ bætir hún við.

Erna gerir því ráð fyrir að fjölmargir taki þátt í símalausa sunnudeginum og reyni að láta símann ekki trufla samskipti og samveru með fjölskyldunni.

Hún hvetur fólk til að skrá sig til þátttöku inni á heimasíðu Barnaheilla og skuldbinda sig þannig til að leggja símann til hliðar frá klukkan níu að morgni til níu að kvöldi. „Þeir sem eru með fá send góð ráð á laugardagskvöldinu varðandi það hvernig þeir geta komist í gegnum daginn,“ segir hún kímin, en viðbúið er að það verði átak fyrir suma að leggja símann til hliðar. Það getur því komið sér vel að hafa ráð undir rifi hverju. Þar fyrir utan eiga allir sem skrá sig möguleika á vinningi.

Erna segir mikilvægt að foreldrarnir séu góðar fyrirmyndir fyrir börnin sín. „Að við sýnum börnunum að við getum sleppt þessum tækjum. Kennum þeim að við stýrum tækjunum en ekki þau okkur. Við erum ekki að banna neitt, en yfirleitt er ekki mjög mikil neyð sem skapast þó að síminn sé lagður til hliðar í nokkra klukkutíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert