Heilbrigðiskerfinu loks mótaður grunnur

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag drög að stefnu fyrir …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag drög að stefnu fyrir heilbrigðiskerfið til ársins 2030. mbl.is/Árni Sæberg

Skýr heilbrigðisstefna til lengri tíma, sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggir sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, mun skapa góðan grunn undir íslenska heilbrigðiskerfið, grunn sem hingað til hefur vantað.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem kynnti í dag drög að stefnu fyrir heilbrigðiskerfið til ársins 2030. „Til þess að geta tekið á einstökum þáttum þurfum við að vera með grunn. Við erum alltaf að lenda í því að við erum ekki með þennan sameiginlega skilning, við erum ekki með grunninn undir íslenska heilbrigðiskerfið, þennan pólitíska og sameiginlega grunn samfélagsins undir það hvað felst í góðri heilbrigðisþjónustu,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

Með stefnunni vill hún líta til framtíðar. „Ég er að reyna að halda mig við það að horfa á stóru hlutina, horfa til lengri framtíðar, af því að það er mjög auðvelt í sæti heilbrigðisráðherra að vera bara að glíma við verkefni dagsins og ná aldrei að fjalla um framtíðina,“ segir Svandís.

Allar raddir fái að heyrast

Í stefnunni er fjallað um sjö lykilviðfangsefni; mannauð, framtíðarsýn, veitingu heilbrigðisþjónustu, þátttöku notenda, gæði, skilvirk þjónustukaup og stjórnun og samhæfingu. Svandís segir að það sem skipti mestu máli við mótun og innleiðingu stefnunnar er að ferlið verði opið og lýðræðislegt. „Þetta heilbrigðisþing er hluti af þeirri viðleitni að hafa umfjöllunina sem opnasta,“ segir hún.

Engu að síður hefur verið bent á að aðilar í einkarekstri innan heilbrigðiskerfisins komi hvergi að þinginu. Ragnar Freyr Ingvarsson, sjálfstætt starfandi læknir, vakti athygli á þessu á Facebook og sér þætti áhugavert að sjá að fólk sem leiðir áfram heilbrigðiskerfið með sérþekkingu sinni fái ekki tækifæri til að halda erindi á þingi sem þessu.  

Svandís segir að erindi á þinginu snerti alla og þó svo að fulltrúar úr einkageiranum séu ekki með erindi á þinginu geti allir tekið þátt í því. „Hér eru fulltrúar frá hjúkrunarheimilum, SÁÁ, Reykjalundi og frá fleiri aðilum, Læknafélagi Íslands og Læknafélagi Reykjavíkur. Hér eru allir á vettvangi og það fer fram opið samtal. Hér eiga allar raddir að fá að heyrast.“

Svandís Svavarsdótti heilbrigðisráðherra flutti opnunarávarp á heilbrigðisþingi sem fram fer …
Svandís Svavarsdótti heilbrigðisráðherra flutti opnunarávarp á heilbrigðisþingi sem fram fer í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Greining á mannaflaþörf ekki nógu vönduð hingað til

Þegar rýnt er betur í drög heilbrigðisstefnunnar sést að mikil áhersla er lögð á mannauð. Í stefnunni er meðal annars kallað eftir því að árið 2030 verði búið að greina mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja mönnun heilbrigðisþjónustunnar.

Svandís segir að greining á mannaflaþörf heilbrigðiskerfisins sem gerð hefur verið hingað til hafi ekki verið nægilega vel gerð. „Við þurfum að skoða og fá niðurstöðu í það hvernig breytt aldurssamsetning gerir ráð fyrir og gerir kröfu um mögulega aðra samsetningu á mönnun í heilbrigðisþjónustunni.“

Vegna breytinga á faglegu starfi innan heilbrigðisgeirans, meðal annars með auknu þverfaglegu samstarfi heilbrigðisstétta og meiri teymisvinnu, er þörf á breyttri skilgreiningu á mannaflaþörf að mati Svandísar. „Það er ekki nóg að vera með mannaflaspá, það er hversu margir útskrifast, heldur miklu frekar hver er þörf heilbrigðisþjónustunnar miðað við þróun hennar og miðað við breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar.“

Heilbrigðisstofnanir verði eftirsóttir vinnustaðir

Í stefnunni er einnig það markmið að árið 2030 verði heilbrigðisstofnanir eftirsóttir vinnustaðir. Aðspurð hvernig því markmiði verði náð segir Svandís að þar skipti máli að búa betur að heilbrigðisstarfsfólki í húsnæði, aðstöðu og tækjabúnaði. „Það skiptir líka miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk upplifi það að það sé í stöðugri faglegri þróun og eigi möguleika á samstarfi við aðrar fagstéttir í að takast á við það sem er fremst í þróun viðkomandi þjónustu í heiminum og sé í fremstu röð. Það er að hluta til spurning um innra skipulag stofnananna og auðvitað sýn stjórnvalda á það hvað er góðar starfsaðstæður og spennandi vinnustaðir.“

Nýr meðferðarkjarni Landspítalans skiptir einnig máli þegar kemur að ánægju heilbrigðisstarfsfólks að mati Svandísar. Yfirlýst markmið nýs Landspítala er að byggja upp betra sjúkrahús fyrir alla landsmenn. „En við erum líka að skapa byggingu og aðstöðu sem verður með því mest spennandi í heiminum fyrir ungt fólk sem vill hasla sér völl sem læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða starfsfólk í heilbrigðisþjónustu annars staðar,“ segir Svandís.

„Tæknilega flóknasta framkvæmd Íslandssögunnar“

Áætlað er að meðferðar­kjarn­inn verði tek­inn í notk­un árið 2024 og er hugsaður út frá starf­semi bráða- og há­skóla­sjúkra­húss. „Það er á fjármagnaðri fjármálaætlun þannig að við ættum að sjá fyrir endann á því,“ segir Svandís.

„Framkvæmdin er tæknilega flóknasta framkvæmd Íslandssögunnar, og þar er Kárahnjúkavirkjum meðtalin, vegna þess hversu margir þættir eru þarna undir í lögnum, leiðslum og innviðum. Við erum ekki bara að tala um fjóra veggi heldur virkilega flókna samsetningu þar sem á að vera hægt að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á heimsvísu,“ segir Svandís.

Heilbrigðisstefnan lögð fyrir á vorþingi

Með innleiðingu heilbrigðisstefnu til 2030 mun Ísland bætast í hóp fjölda Evrópuþjóða sem hafa sett sér sams konar stefnu og segir Svandís það aðkallandi og mikilvægt skref.

„Næstu skref eru að vera með opna samráðsgátt svo almenningur hvaðan æva af landinu geti komið með sínar ábendingar inn, ekki síður heilbrigðisstéttir og sjúklingasamtök,“ segir Svandís. Því næst verður stefnan lögð fram í formi þingsályktunartillögu sem byggir á skýrslu um heilbrigðisstefnu fyrir Íslands til ársins 2030 og mælt verður fyrir tillögunni á vorþingi.

„Við erum stödd í miðju ferlinu, við erum búin að halda opna vinnufundi með heilbrigðisstofnunum. Það er búið að halda sérstaka fundi með stéttarfélögum og stærstu aðilunum sem reka fyrirtæki í velferðarþjónustu og svo þetta opna þing. Við erum á miðri leið,“ segir Svandís.

Hún er bjartsýn á að innleiðing stefnunnar takist og treystir hún á stöðugleika í stjórnmálunum til að fá vinnufrið. „Ég vonast til þess að þessi ríkisstjórn sé ríkisstjórnin sem verði stöðug og muni sitja áfram. Ef það er vont fyrir einhvern málaflokk þá er það vont fyrir heilbrigðismálin að það séu ör skipti og miklar breytingar. Ég miða mína vinnu við það að sitja þetta kjörtímabil og helst fleiri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert